Ég og kæró fórum til Tenerife í janúar. Mig langar til að fjalla aðeins um ferðina og okkar reynslu því það virðist vera að helmingurinn af landanum sé á leiðinni þangað!

Ef þið eruð að hugsa um að fara low budget ferð þá mæli ég með að vera dugleg að skoða hótel og flugferðir á netinu, því það er hægt að spara allnokkra skildinga þannig! Við fengum t.d. 10 daga gistingu á góðu tilboði, borguðum um 70 þúsund kall(hótelið var sko alls ekkert slor)! Flug fram og til baka fyrir okkur tvö var síðan í kringum 90 þúsund krónur.

Sundlaugaraðstaðan á hótelinu


Útsýnið frá hótelherberginu

Þetta var í fyrsta sinn sem við höfðum heimsótt þessa skemmtilegu eyju. Við kolféllum fyrir henni um leið vegna fegurðar og stórbrotins landslags! Einnig kom okkur á óvart hversu ótrúlega snyrtilegar borgirnar eru og eyjaskeggjarnir virðast leggja mikla áherslu á að gera þær vinalegar og fallegar.

 

EYJAN

Hitastigið sveiflast lítið á eyjunni og munur milli veturs og sumars eru lítil. Þetta er ein helsta ástæða þess að Tenerife er svona vinsæll ferðamannastaður árið um kring. Hitastigið er í kringum 17°-21°( fór samt upp í 24° þegar við heimsóttum eyjuna)  Okkur leið mjög vel í þessum veðri, vorum léttklædd allan tímann en vorum ekki að leka niður eins og smjör af hita heldur. Á kvöldin drógum við svo fram síðbuxurnar og léttan jakka.

Yfirleitt þegar rætt er um Tenerife er henni skipt í  norður og suðurhluta.   Við bókuðum hótel í norðurhlutanum í borginni Puerto de la Cruz.  Við heimsóttum síðan einn daginn vinsælustu túristaborgina Playa de las Americas en þessir tveir staðir eru algjörlega svart og hvítt!  Ef maður er að leitast eftir djammi og að sleikja sólina þá er Ameríska ströndin staðurinn.  Ef megintilgangur ferðarinnar er slökun og að kynnast eyjunni þá mæli ég frekar með að vera norðanmegin.

                                                                                 Ameríska ströndin

Þegar við bókuðum ferðina ákváðum við að hafa engan mat innifalinn  vegna þess að við myndum ferðast flesta daga.  Ég mæli hiklaust með því vegna þess að veitingastaðirnir þarna eru mjög ódýrir og góðir,sérstaklega í fiskiréttum og nautakjöti! Verð á kokteilum og víni er algjört grín miðað við hvað maður er vanur, bæði á hótelum og veitingastöðum.

 

Afþreying

Eyjan er  pínulítil og tekur einungis örfáar klukkustundir að keyra hringinn í kringum hana. Það gefur manni tækifæri til að skoða og upplifa margt á stuttum tíma!  Einnig er þetta kjörinn staður fyrir þá sem nenna ekki að liggja bara á sólbekknum allan daginn því afþreyingakostir á þessari eyju eru bæði margir og fjölbreyttir.

Við ákváðum að leigja bíl til að geta farið hringinn í kringum eyjuna og kynnast henni betur. Þegar við pöntuðum bílinn vildum við hafa GPS tæki innifalið og sáum ekki eftir því þar sem gatnakerfið er allt öðruvísi og á mörgum stöðum flóknara.  Án tækisins hefði allt tekið helmingi lengri tíma, þótt maður geti reddað sér með símanum.

Við keyrðum upp á fjallið El Teide sem er 3,718 m hátt!  Á leiðinni upp má sjá hvernig landslag og flóra breytist eftir hæð þar sem hitastigið lækkar því ofar sem þú ferð. Flóran breyttist frá hitabeltisgróðri yfir í lárviðarskóga, síðan yfir í furubelti sem líkist meira norðlægu slóðunum og efst á toppnum er hrein eyðimörk (minnti mann bara á Arizona).
Þegar komið er upp á hásléttuna, er tindurinn eftir. Hægt er að húkka sér far með  kláf sem ber mann lokametrana en það er mögnuð tilfinning að ferðast um ofan skýjalínunnar.  Sem betur fer tókum við útivistarjakka,síðbuxur og húfu með því það var snjór og mjög kalt þarna uppi, maður sárvorkenndi öðru fólki sem gengu á bolnum frjósandi í hel!

 

                                                                             Myndir á leiðinni upp fjallið

Á leiðinni upp tókum við eftir að þetta er mjög vinsæll staður til að taka hjólreiðatúra og þá meina ég alvöru hjólreiðar því það er sko ekkert grín að hjóla þarna upp! Einnig virtust margir vera að hjóla í kringum eyjuna.

Við heimsóttum einnig bæinn Los Gigantes sem er nefnt eftir kletti fyrir ofan bæinn.  Þetta er einn vinsælasti ferðamannastaðurinn á eyjunni !
Los Gigantes

Sjótengdar afþreyingar  eru margar þar sem þetta er jú eyja, planið er að gera meira af því næst þegar við heimsækjum Tenerife!  Hægt var að að kafa, fara á siglingar á milli eyja, fara í kafbát og margt fleira áhugavert.

Verðlag á Kanaríeyjum er mjög ódýrt og manni fannst allt að því helmingi ódýrara(bókstaflega!) að versla hvort sem það var matur eða munaðarvörur.  Í Santa de la Cruz (höfuðborgin) eru langar verslunargötur og margar verslunarmiðstöðvar. Einnig eru lista/náttúrusöfn og eflaust margar fleiri menningarafþreyingar.

Við vorum mjög sátt með þessa ferð og munu pottþétt heimsækja þessa fallegu og áhugaverðu eyju aftur! Því miður(not so sorry ) vorum við svo upptekin að njóta ferðarinnar að við steingleymdum að taka myndir af allri dýrðinni svo að í þetta sinn eru ekki margar myndir hér á ferð <3

Góða helgi!

 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *