Fyrir rúmum mánuði síðan skrifaði ég smá færslu hérna um að “passa ekki” eftir fæðingu.
Hana má lesa hér og ég mæli alveg með því að kíkja á hana fyrst til þess að þessi færsla meiki aðeins meira sens.

Ég talaði um að ég hefði tekið ákvörðun um að eyða ekki þessum tíma í þessu “millibils ástandi” í að vera óánægð með sjálfa mig heldur reyna frekar að elska stórkostlega líkama minn í því ástandi sem hann er hverju sinni því hann ætti það skilið eftir allt sem hann væri búin að ganga í gegn um.

Ég vissi að þetta yrði ekki mitt auðveldasta verkefni hingað til og believe me ég hef þurft að minna sjálfa mig á mín eigin orð á hverjum einasta degi, en ég hef líka gert það og mér finnst ég hafa staðið mig ótrúlega vel í því að læra að elska þennan “nýja” líkama.

Það þýðir hinsvegar ekki að það sé ekkert mál og ég eigi ekki moment eða daga þar sem það virkilega tekur á sálina að “einhver” (ég ætla að halda mig við að persónugera líkamann minn eins og ég talaði um í fyrri færslunni) sem maður hefur þekkt í svona langan tíma, sé nú allt í einu allt annar.

Ég fékk mjög slæma lífbeinsgliðnun á meðgöngunni sem er að mér skilst víst ekkert rosalega algengt, síðustu tvo mánuðina átti ég orðið mjög erfitt með að ganga og bókstaflega skreið á fjórum fótum milli herbergja sum kvöld þegar ég kom heim úr kennslu, því líkaminn gat bara ekki meira. Ég kenndi út 35 viku, ég reyndi að vera dugleg að hlusta á líkamann eins og ég gat, kenna rúllandi um á skrifborðsstól eða sitjandi á bolta, en þegar það er gaman eða manni finnst maður ekki koma hlutunum eins vel til skila og maður vildi, gleymir maður sér og gerir kannski örlítið meira en maður ætti. Hefði ég átt að fara í frí fyrr, gera minna, hugsa betur um sjálfa mig, já sennilega. Mér fannst það bara ekki vera í boði. Það voru of margir sem voru að treysta á mig til að klára mitt verk, standa mig, gera eins vel og ég gat. Konur hafa alla tíð unnið heilar meðgöngur, fengið grindargliðnun eða aðra mun verri kvilla, ég hlaut nú aldeilis að geta harkað af mér þessa síðustu mánuði og klárað mitt, enda elskaði ég það sem ég var að gera.

Það eru 9 vikur síðan ég átti Helgu Alice, ég er aftur komin til sjúkraþjálfara, lífbeinið er skárra en það var á síðustu metrunum en það er enþá mjög slæmt. Ég er enþá 15 kílóum (já í veiku mómenti asnaðist ég á f***ing vigtina) þyngri en ég var þegar ég varð ólétt en ég get ekki stundað líkamsrækt útaf lífbeininu enþá og að halda mataræðinu tiptop án hreyfingar er eitthvað sem einhverjar hetjur, sem eru ekki ég, geta bara.

Þetta eru ekki alveg aðstæðurnar sem mig dreymdi um og í fullri hreinskilni þá er baráttan um að elska þennan nýja vin minn (líkamann) að reynast mér mun erfiðari fyrir vikið.

Ef ég hefði farið í frí fyrr, stoppað, ekki gert ósanngjarnar kröfur til sjálfs míns væri ég skárri í dag? Ég veit það ekki, það þarf svo sem ekkert að vera en svona almenn skynsemi segir mér að það sé ekkert ólíklegt að ég væri allavegana einhverju skárri.

Við sem konur í dag (og karlar reyndar oft líka en ég ætla að leyfa mér að segja konur í þessu samhengi) eigum það til að þjást af einhverskonar ofurhetju syndromi. Okkur finnst við þurfa að geta gert allt í einu, við viljum geta unnið fulla vinu, haldið fullkomið heimili, átt börn, farið í ræktina, menntað okkur vel, litið vel út, sigrað heiminn, án þess að blása úr nös. Ég er sko aldeilis engin undantekning, ég er stödd einhverstaðar innan konungsfjölskyldunar þegar kemur að því að gera kröfur til sjálf síns, og það hefur líka skilað mér miklu, en stundum þarf bara að segja stopp.

Stundum þarf bara að fara í frí og hugsa um sjálfan sig til þess að seinna, geta áfram verið þessi hetja sem maður vill vera.

Þetta virðist reynast okkur virkilega erfitt og er hægt að fara útí ýmsar vangaveltur um afhverju það sé en ég ætla að leyfa mér að fullyrða að pressan í samfélaginu eigi stóran þátt í þessu öllu saman þó ég ætli ekki að fara nánar útí þá sálma að þessu sinni.

Ég held að innst inni vitum við allar að maður þarf ekki að vera fullkominn og að þessar kröfur séu bilaðar, en samt einhvernvegin erum við alltaf í þessari keppni við okkur sjálf. “Að vera besta útgáfan af sjálfum sér” er frasi sem ég hata (af mörgum ástæðum sem ég fer kannski út í seinna) en ég er stanslaust að nappa sjálfa mig við það að reyna vera það, og ekki bara besta útgáfan af sjálfri mér heldur bara besta útgáfan af öllu sem er til, mér finnst ég þurfa að vera framúrskarandi, alltaf… og þannig held ég að við séum mörg. SEM ER ALGJÖR BILUN!

Vill ég læra að elska líkama minn í hvaða ástandi sem er eins og ég talaði um, vera góð fyrirmynd fyrir dóttur mína, ala hana upp við að hún þurfi ekki alltaf að vera “besta útgáfan af sjálfri sér”, vita að ég þurfi ekki að vera fullkomin, vera meðvituð o.s.frv. …..að sjáfsögðu!

En ég má samt líka alveg eiga daga þar sem samfélagið sigrar og mér finnst ég bara alls ekkert frábær, þar sem mér hreinlega líður eins og búrhval (þó ég kannski sleppi því að segja það upphátt innan um hana) stundum á maður sjittý daga, þannig er bara lífið, og það má alveg líka.

Ég er almennt mjög jákvæð manneskja en í dag langar mig ekkert meira en að sitja uppí sófa og skæla eins og dramatískur unglingur yfir því hvað ég er feit, yfir því hvað mig langar mikið að geta farið út að hlaupa, geta dansað, geta farið í langa göngutúra með dóttur mína, geta langað í banana frekar en hálfann pakka af kexi og öskra því á sjálfa mig í hausnum á mér afhverju ég gat ekki bara drullast til að halda mér á mottunni í þennan stutta tíma sem ég var ólétt og í leiðinni drukkið minna af Bónus appelsínusafanum! (sem mér hefur by the way tekist að losa mig við.. litlu sigrarnir), og það er bara aldeilis allt í lagi líka svona einu sinni!

 
Dans ungarnir mínir making mama proud

Ég er ótrúlega stolt af því sem ég afrekaði á meðan ég var ólétt og hefði alls ekki viljað fara frekar í frí og “missa af” þessum tíma í vinnunni, en ef ég hefði verið að setja líkama minn og það sem hann þurfti þessu sinni í fyrsta sæti þá hefði ég verið heima, eða allavegana notað munninn og hendurnar í stað þess að reyna sýna eitthvað “move” sem innihélt að setja fótinn á sér við augnhæð…

Ég er líka nokkuð viss um að enginn hefði erft það við mig þó ég hefði farið í smá leyfi miðað við aðstæður og að ég var sennilega manneskjan sem var aðalega að gera kröfur og ætlast til einhvers af mér, ekki allt fólkið sem mér fannst ég þurfa standa mig fyrir, og þannig held ég að það sé ótrúlega oft þegar við erum að drekkja sjálfum okkur í þessum “stöndurdum” eða kröfum.

Sjúkraþjálfarinn minn er snillingur og ég veit að þetta blessaða lífbein mun lagast, ég mun geta hlaupið aftur, dansað, farið í langa göngutúra og hennt kexinu. Þessi blessuðu 15 kíló eiga eftir að fara og þangað til mun ég reyna vanda mig alla daga við að hrósa líkama mínum fyrir hvað hann er ótrúlegur og þakka honum fyrir þessa stórkostlega, fullkomnu, litlu manneskju sem hann gaf mér frekar en að segja honum að hann sé eins og búrhvalur. En ég á örugglega eftir að eiga nokkra daga inná milli þar sem mér finnst allt alveg glatað og ég alveg vonlaus, en það er líka allt í lagi.

Ég hefði sennilega geta skrifað 3 mismunandi pistla úr þessum eina og það hefði sennilega verið gáfulegra og komið point-inu mínu betur til skila en það sem ég er reyna að segja er, að þó maður eigi að læra að elska sjálfan sig og allt það sem skiptir svo svo miklu máli og er mér algjört hjartans mál að þá má maður líka eiga slæma daga, hvort sem það er í sjálfsást eða að gleyma sér í kröfunum, maður getur ekki alltaf verið í 100 prósentunum (þó maður megi að sjálfsögðu ekki fara í núllið!). …… og svo líka að konur, þið eruð stórkostlegar en getum við plís hætt að keppast við að vera Herkúles, þó hann sé flottur?

Þar til næst…

xxx
Katrín Mist


@katrinmistharalds

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *