Gleðilegan laugardag!

Ég ætla að deila með ykkur snúðauppskrift sem ég fékk fyrst hjá tengdamömmu minni og er í algjöru uppáhaldi í minni fjölskyldu.

Mér finnst alveg ótrúlega gaman að bera þessa snúða fram þegar við fáum gesti í heimsókn eða í veislum af því þeir líta aðeins öðruvísi út en aðrir gersnúðar og eru líka svo ótrúlega góðir. En þeir eru líka fullkomnir með helgarkaffinu fyrir fjölskylduna.

Uppskriftin

5 dl mjólk

1 pakki þurrger

1 ½ dl sykur

150 g brætt smjör(líki)

1 tsk salt

15-16 dl hveiti

Ég nota alltaf hrærivél þegar ég bý til deigið en það er engin nauðsyn. Ég byrja síðan á því að hita mjólk í örbylgjuofni á vægum hita þangað til hún er orðin volg. Svo bæti ég þurrgeri og sykri út í og hræri nokkra hringi og leyfi þessu að standa í nokkra stund þangað til það fara að myndast loftbólur. Þá er smjörlíki, salti og hveiti í nokkrum skömmtum bætt út í og hrært þangað til hægt er að móta góða og slétta kúlu úr deiginu.

Mér finnst best að láta deigið hefast í ca. hálftima í heitu vatni í vaskinum og láta viskustykki ofaná skálina.


Þegar deigið er búið að hefast skipti ég því í tvennt og flet út.
Fyllingin er ca 100 gr. brætt smjör(líki) og nóg af kanelsykri

Bræddu smjörlíki er dreift yfir útflatta deigið og kanelsykrinum líka. Deigið er síðan brotið saman og skorið í ca 1 cm ræmur. Ég sný uppá ræmurnar og bý til einhvers konar hnút og set í möffinsform.
Næst er að píska egg og pensla snúðana og lokapunkturinn er að strá perlusykri yfir – það gerir svo ótrúlega mikið.

Bakið í miðjum ofni við 250°c í ca 5-8 mín.

Þegar ég er búin að baka finnst mér langbest að skella þeim snúðum sem ekki voru borðaðir strax (ef einhverjir verða eftir) í frystinn því þá geymast þeir miklu betur. Síðan bara taka þá úr frystinum þegar á að bera þá fram og hita í tæpa mínútu því þeir eru bestir heitir, eða það finnst mér allavega.

Ég skora á ykkur að baka þessa snúða og hafa með helgarkaffinu <3

– Helga Sigrún –

 

 

 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *