saa

 

Í sumar upplifði ég atburð sem mig langar aldrei að upplifa aftur.
Dóttir mín var úti í vagni sofandi einn daginn en ég heyrði að hún rumskaði, svo ég fór út að athuga með hana og ákvað að það væri kannski best að taka smá hring með hana í hverfinu. Ég var bara á tánum þegar ég fór út svo ég tók tvö skref yfir þröskuldinn þar sem ég horfði á skóna mína og ætlaði að sækja þá í hvelli, en þegar ég leit til baka var vagninn ekki þar sem ég hafði skilið hann eftir heldur sá ég hann stefna beint að stiga sem liggur ofan í niðurbyggðan bílskúr. Ég hljóp á eftir vagninum og ætlaði að ná honum en hann var kominn of langt svo ég sá á eftir honum niður stigann þar sem hann rúllaði niður og endaði á hvolfi neðst í stiganum. Á þessum tímapunkti hélt ég virkilega að ég hefði drepið barnið mitt og þegar ég hugsa til baka man ég bara eftir mér öskrandi og grátandi. En þið vitið ekki hversu fegin ég var þegar ég hljóp niður stigann og heyrði hana gráta. Þetta var sá allra besti grátur sem ég hef á ævi minni heyrt. Þegar ég tók hana uppúr vagninum hætti hún strax að gráta og horfði bara á mig og fannst greinilega skrítin öll þessi læti og hamagangur sem átti sér stað. Arnar, kærastinn minn var nýkominn heim úr vinnunni og ég þakka fyrir að hann hafi verið heima enda náði ég að rífa hana uppúr vagninum, athuga ástandið á henni, hlaupa út í bíl og keyra niður á sjúkrahús á tveimur mínútum en ég hef ekki hugmynd um hvernig okkur tókst það og man ég mjög lítið eftir þessu enda þegar við komum á sjúkrahúsið hélt fólk að það hefði eitthvað komið fyrir mig en ekki barnið þar sem ég var grátbólgin og öskrandi en barnið hið slakasta, ég var svo ótrúlega hrædd um hana.  Við fengum svo að fara strax inn til læknisins þegar við komum uppá sjúkrahús og var hún skoðuð og leit allt vel út en hún fór svo í aukaskoðun til að athuga enn betur hvort allt væri í lagi og er ég mjög þakklát fyrir það hversu góða þjónustu við fengum. Ég spurði svo Arnar þegar við komum af sjúkrahúsinu hvort við hefðum farið í belti eða spennt hana í bílstólinn sem við auðvitað gerðum en ég mundi ekkert eftir því.
En það sem ég tel að hafi bjargað öllu var að daginn áður (sem er alveg ótrúlegt) keypti ég beisli og setti í vagninn. Ég var lengi búin að ætla að kaupa beisli handa henni en einhvernveginn fannst mér hún svo lítil og ekki farin að hreyfa sig það mikið að það þyrfti kannski ekki alveg strax. Ég get ekki hugsað það til enda hvernig þetta hefði getað farið ef hún hefði kastast út úr vagninum og lent sjálf á jörðinni og rúllað niður stigann. Ég fæ enn óþægilegar hugsanir varðandi þetta og fyrst um sinn kenndi ég sjálfri mér algjörlega um þetta og fannst ég ömurleg mamma að hafa ekki getað passað barnið mitt betur og ætlaði aldrei að segja neinum frá þessu. Svona slys sem þessi geta haft alvarlegar afleiðingar í för með sér og til allrar hamingju fór ekki verr. Þarna áttaði ég mig líka á því að svona getur gerst á nokkrum sekúndum og eftir svona atvik gleymir maður aldrei að setja vagninn í bremsu og fer að gæta betur að hverju einasta öryggisatriði sem til er.

-Helga Sigrún-

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *