Þar sem jólin nálgast óðfluga er ekki úr vegi að staldra við og íhuga þessa spurningu. Erum við að gefa gjafir sem gleðja eða erum við að gefa gjafir af því að við eigum að gera það? Erum við að gefa gjafir sem við höfum efni á að gefa? Eða erum við að gefa gjafir sem steypa okkur í skuldafen og tilheyrandi vanlíðan, bara af því að okkur langar til að gleðja aðra en ekki okkur sjálf? Hvað með kerti og spil, er það bara gömul lumma? Væri ekki ráð að gefa gjafir sem gleðja bæði þá sem gefa og þiggja?

Erum við kannski að gleyma því dýrmætasta sem er tími? Að gefa hvort öðru tíma, vera í samvistum við okkar nánustu og njóta þess að vera til, saman! Tíminn er auðlind, hann kemur og fer en kemur ekki aftur. Við megum ekki gleyma að þiggja. Að þiggja þann tíma sem við höfum og njóta hans. Deila honum með þeim sem okkur þykir vænt um og deila honum með þeim sem þurfa á aðstoð okkar að halda. Og þiggja þakklæti í staðinn!

Að þiggja nærveru, væntumþykju, ást og ummönnun er ekki á allra færi. Ungabörn gera það og fara létt með, en við hin virðumst hafa gleymt þeim eiginleika. Og það er synd. Við ættum að leyfa okkur að njóta, njóta þess að hafa tíma, njóta þess að eiga vini og vandamenn sem við getum deilt tímanum með. Njóta þess að vera á lífi og þess sem lífið hefur upp á að bjóða. Njóta þess að þiggja!

Þiggjum og verum þakklát. Njótum þess að vakna á hverjum morgni og líta dagsins ljós, njótum þess að draga andann og njótum þess að vera til. Þiggjum og njótum.

En gefum gjafir, gjafir sem við höfum efni á að gefa og væntum einskis í staðinn. Verum þakklát fyrir að geta gefið gjafir og njótum þeirra sem við fáum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *