Mér hefur gengið hálf erfiðlega að koma mér af stað í lífinu þetta haustið. Það er mikið búið að ganga á og búið að vera mjög mikið að gera, sem mér finnst venjulega alveg dásamlegt en núna er ég eitthvað lítil í mér og langar helst bara að vera heima og leika við dóttur mína og gera ekkert annað. Lífið bíður hinsvegar ekki alveg uppá það núna svo ég þarf einhvernvegin að rífa mig í gang!

Mér finnst oft hjálpa þegar mig vantar hvatningu að líta aðeins í kring um mig og fá orku og hvatnigu frá öðrum sem eru að standa sig vel. Ég ákvað því að hrinda af stað smá “pepp seríu” og taka viðtöl við fólk í kring um mig sem mér finnst duglegt og hvetjandi og ætla deila því með ykkur.

Fyrsti einstaklingurinn sem ég ræddi við er Ólafía Kristín Norðfjörð (Lóa). Lóa er keppandi í The Biggest Loser Íslandi og vil svo skemmtilega til að hún er líka systir mín! Mér er búið að finnast svo gaman að heyra undanfarið hvað fólk talar mikið um hvað hún sé einlæg og dugleg og hvað viljinn fyrir því að ná árangri skíni mikið í gegn hjá henni í þáttunum. Ég er algjörlega sammála og er heldur betur stolt af henni og æsi spennt fyrir þættinum á fimmtudaginn!
Ég hef aldrei verið mikil Biggest Loser manneskja og satt best að segja var ég ekki alveg viss hvað mér fannst um þetta til að byrja með, þættirnir hafa fengið mikla og mismunandi gagnrýni bæði hérlendis og erlendis svo það er erfitt að vera ekki með smá áhyggjur þegar einhver sem manni þykir vænt um ákveður að demba sér út í óvissuna.

Lóa býr fyrir sunnan og ég á Akureyri svo ég hef lítið hitt hana eftir að tökum lauk og veit því ekki mikið. Mér fannst því kjörið að fá hana til að svara nokkrum spurningum. Mér finnst hugarfarið hennar dásamlegt og á hárréttum stað og efast ég ekki um að hún muni reynast hvattning fyrir einhverja fleiri, hvort sem hún felst í því að hugsa betur um heilsuna eða bara koma sér í gang eftir sumarið!

Af hverju ákvaðstu að taka þátt í The Biggest Loser?

Hér að neðan kemur svarið mitt sem ég skrifaði niður þegar ég kom á Bifröst.
Það inniheldur allar þær ástæður fyrir því að ég sótti um þátttöku í Biggest Loser.

Í fyrsta lagi sótti ég um í Biggest Loser vegna þess að ég var á hraðri uppleið í þyngd. Þegar ég tilkynnti fjölskyldu og vinum að ég væri komin inn þá voru allir spenntir fyrir mína hönd en það voru nokkrir sem veltu því fyrir sér af hverju ég væri að fara í þennan þátt. Er ég nógu feit til að taka þátt í svona keppni? Þarf ég virkilega á þessari hjálp að halda? Svarið var einfaldlega já!

Ég var orðin rúm 113 kíló þegar ég mætti á Bifröst. Ég var á hraðri uppleið vegna þess að ég hafði enga stjórn á mataræði mínu og áhuginn fyrir líkamsrækt var ekki mikill. Ef það hefði ekki verið fyrir systur mína, sem dró mig með sér, þá hefði ég líklega aldrei mætt í ræktina a.m.k. síðasta árið áður en ég kom á Bifröst.  Að vera 113 kíló, 28 ára gömul er ekki heilbrigt!
Það er fyrsta ástæðan fyrir því að ég skráði mig í Biggest Loser.

Önnur ástæðan er matarfíknin sem býr í mér. Ég hef í langan tíma talið mér trú um að ég sé að borða rétt og hollan mat. En af hverju er ég þá í yfirþyngd? Vegna þess að ég er ekki að borða rétt og ég er ekki að borða hollan mat. Í Biggest Loser höfum við fengið að læra svo ótrúlega margt hvað varðar mataræðið og sé ég nú að ég hef ekki verið að gera rétt með því sem ég gerði áður heima hjá mér.

Þriðja ástæðan er að ég vil ná fullri stjórn á andlegri líðan. Að vera í yfirþyngd hefur haft mikil áhrif á andlega líðan mína. Ég hef verið að glíma við fæðingarþunglyndi eftir að ég átti yngri dóttur mína og með því hefur fylgt mikill kvíði og vanlíðan fyrir öllum daglegum athöfnum.
Ég kveið því að fara út á morgnanna, ég kveið því að líta illa út fyrir framan aðra, ég kveið því að fara í búðina og var hrædd um hvað fólk hugsar um mig þegar það sér í matarkörfuna mína, ég kveið því að sækja stelpurnar mínar í leikskólann vegna þess að ég vissi ekki hvort ég hefði úthald til að leika við þær það sem eftir væri af deginum, ég kveið því að fara í ræktina vegna þess að ég passa ekki í ræktarfötin mín og ég vil ekki að aðrir horfi á mig. Allir þessir eðlilegu hlutir sem eiga að vera auðveldir voru virkilega erfiðir. Það er vegna þess að sjálfsálit mitt  var ekki gott og andleg líðan  ekki góð.

Fjórða ástæðan er sú að mig langar að vera góð fyrirmynd. Að vera í yfirþyngd, borða óhollt og mikinn mat og líða illa andlega gerir mig ekki að þeirri fyrirmynd sem ég vil vera fyrir aðra. Ég vil vera þessi sterki karakter sem býr virkilega innra með mér og vera fyrirmynd fyrir fólkið í kringum mig. Góð fyrirmynd fyrir stelpurnar mínar, systkini mín og vini mína. Ég vil losna við þá grímu sem ég hef frá unglingsárum haft fyrir andlitinu á sjálfri mér. Að þessi glaðlega og skemmtilega Lóa sem býr þarna inni fái alltaf að njóta sín án þess að setja upp grímuna og þykjast vera ánægð og glöð – ég VIL vera ánægð og glöð – alltaf!

Fimmta ástæðan – að láta drauma mína rætast.
Ég hef alltaf átt þann draum að fara út í hjálparstarf. Í dag er ég lærð sjúkraliði og uppeldis- og menntunarfræðingur og getur sú menntun nýst mér í alls  konar hjálparstarfi út í heimi þar sem mikil þörf er fyrir heilbrigðisþjónustu og eða kennslu.


En allar þessar ástæður sem ég hef talið upp hérna á undan verða að vera í lagi svo ég geti látið drauma mína rætast. Ég er mikið fyrir það að ferðast hvort sem það er innanlands eða utan og til þess að ferðast og  hjálpa öðrum þá verður líkamlegt og andlegt ástand mitt að vera í lagi.
Ég treysti mér ekki til þess að að hjálpa öðrum með þá grímu og í því líkamlega ástandi sem ég hef verið undanfarin ár. Fyrst er að hjálpa sjálfri mér og geta svo gefið af mér allt sem ég hef að geyma.

Ég skráði mig í Biggest Loser til að verða heilbrigð bæði andlega og líkamlega.
Ég skráði mig í Biggest Loser til að verða sú fyrirmynd sem mig langar að verða fyrir dætur mínar, fjölskyldu og vini.
Ég skráði mig í Biggest Loser til að eiga möguleikann á því að láta drauma mína rætast.

Ég á bara einn líkama. Ég vil hætta að skemma líkama minn og andlega heilsu með niðurbroti, óhollustu og almennri vanlíðan.

Ég skráði mig í Biggest Loser þegar ég var 28 ára gömul í yfirþyngd og með lélega andlega heilsu vegna þess að ég vil verða betri ég – betri Lóa.

Fékkstu aldrei bakþanka eftir að þú vissir að þú hefðir komist inn?
Nei ég fékk aldrei bakþanka eftir að ég komst inn í 12 manna hópinn. Ég var svo virkilega tilbúin í þetta verkefni og var bara farin að hlakka til þegar kom að því að fara á Bifröst.

Hafðiru reynt að létta þig áður sjálf?

Já, ég hef sko reynt ýmislegt frá því ég var unglingur. Ég hef farið á mörg líkamsræktarnámskeið, en einhvern vegin hefur ekkert virkað hjá mér. Ég hef skoðað marga af þessum megrunarkúrum og prófa suma sem virka örugglega fyrir einhverja en hafa ekki virkað fyrir mig.

Af hverju gekk það ekki?
Ætli það hafi ekki verið mataræðið sem var minn veikleiki og þegar mataræðið er ekki gott þá eru litlar líkur á því að maður léttist. Mér fannst ég oft vera mjög holl og vera að borða hollann mat en ekkert gerðist. Eftir dvölina á Bifröst þá lærði ég mikið um rétt mataræði og sá í rauninni hvað ég var að borða vitlaust og allt of mikið í hvert mál.

Hvað var erfiðast við ferlið?
Erfiðast við dvölina á Bifröst var klárlega að vera frá fjölskyldunni. Þá sérstaklega eiginmanninum og stelpunum mínum tveimur sem eru 2ja og 4ra ára. Þegar ég kvaddi þau daginn fyrir fyrsta tökudag þá var ég í rauninni að kveðja með því hugarfari að vera í burtu frá þeim í 9 vikur.
Ég vissi auðvitað ekkert hvort ég myndi sjá stelpurnar og fjölskylduna mína eftir eina viku eða fleiri þar sem keppnin virkar þannig að einn einstaklingur dettur út í hverri viku og ég hafði að sjálfsögðu ekki hugmynd um það hvernig mér myndi ganga þarna. Svo það sem fellur undir „erfiðast við ferlið“ voru kveðjustundirnar áður en ég fór á Bifröst.

Langaði þig aldrei að gefast bara upp og fara heim?
Það kom upp í hugann á mér fyrsta daginn hvort ég væri að gera rétt og hvort ég ætti ekki að fara heim aftur. Ég hugsaði til allra heima á hverjum einasta degi, hvað stelpurnar væru að gera, hvernig Þresti mínum gengi að sjá um stelpurnar, vinkvenna minna sem voru að lifa sínu lífi og öllu því sem ég var kannski að missa af á hverjum degi. Það var erfitt á hverjum degi sem ég var þarna að spá í allt þetta en ég reyndi samt að bæla þeim hugsunum frá og hugsa hvað ég væri raunverulega að gera þarna og taka það inn í þakklæti fyrir það tækifæri sem ég fékk til að eignast betra líf.

Ef þú þyrftir að lýsa dvölinni á Bifröst í einu orði, hvað væri það?

Einstakt 😊

Ertu stressuð fyrir lokaþættinum?
Ég er ekki stressuð fyrir lokaþættinum, meira bara spennt. Ég hlakka svo til að hitta alla hina keppendurna aftur og ég veit að við munum eiga stórkostlegt kvöld saman.

Hvernig sérðu fyrir þér að lífið verði öðruvísi eftir lokaþáttinn miðað við hvernig það var áður?
Ég vil sjá mig sem sigurveigara til lífstíðar. Ég hef passað mig á að horfa ekki á þetta allt sem keppni sem lýkur 23. nóvember, ég vil horfa á þetta sem lífsstílsbreytingu sem ég vil að vari allt mitt líf.
Ég hef unnið að þessu verkefni með því hugarfari að springa ekki eftir lokaþátt og missa tökin aftur. Þetta á ekki að vera eitt af þeim verkefnum sem ég tók mér fyrir hendur og fell á! Ég vel mér mataræði sem virkar fyrir mig alla ævi, ég hef fundið líkamsrækt sem mér þykir skemmtileg og vil mæta í á hverjum einasta degi og andleg heilsa er eitthvað sem ég er að vinna í líka með aðstoð frá sálfræðingi.
Lífið eftir lokaþátt gengur áfram sinn vanagang en líkamleg og andleg heilsa munu klárlega fá að blómstra áfram!

Nú hafa The Biggest Loser þættirnir fengið mikla gagnrýni, þó aðalega erlendis en einnig á íslandi. Mörgum finnst gert lítið úr keppendum og “aðgerðir” óheilbrigðar.

Hvernig er þín upplifun? Á þessi gangrýni rétt á sér?

Þessir þættir eru líklega vinsælustu en líka óvinsælustu þættirnir sem sýndir eru í dag, bæði hérlendis og erlendis. Fólk hefur misjafnar skoðanir á öllum málum og er raunveruleikasjónvarp engin undantekning. Gagnrýnin á að sjálfsögðu rétt á sér og er mikilvægt að líta á að í hvaða vinnu sem er þá upplifir fólk hlutina misjafnlega. Þarna komum við saman 12 einstaklingar með misjafnan bakgrunn, persónuleika og misjafnar þarfir svo að upplifun hvers og eins verður jafn misjöfn og við erum mörg.
Ég get einungis talað út frá minni reynslu af Biggest Loser Ísland og sú reynsla er góð og reynsla sem ég hefði aldrei viljað missa af. Þetta er eitt erfiðasta verkefni sem ég hef tekið þátt í en aftur á móti eitt það skemmtilegasta líka. Þetta var virkilegt spark í ********* fyrir mitt leyti, hvort það virki til lífstíðar fyrir alla get ég ekki sagt fyrir um enda ekki í mínum verkahring enn ég mun nýta alla þá reynslu sem ég hef fengið og gera mitt besta til að lifa heilbrigðum lífsstíl alla ævi. 


Ein eld gömul af okkur systrunum þrem, það er augljóslega alltaf mikið fjör í kring um Lóu!
(Alda María, Lóa og undirrituð).

Fyrir áhugasama er hægt að fylgjast með vegferð Lóu að lokaþættinum á Snapchat undir “teamloa1”.

-Katrín Mist


@katrinmistharalds

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *