Ég gerði þetta nammi í fyrsta skipti fyrir jólin í fyrra. Jólin í ár verða engin undantekning. Börnin mín elska þetta og sérstaklega þegar ég nota suðusúkkulaði í staðinn fyrir dökka súkkulaðið. Að gera þetta nammi tekur bara um 40 mínútur í heildina. Mjög einfalt og SVO þess virði!

Það sem þú þarft að eiga/Innkaupalisti:

  • Klístraðar döðlur (ég kaupi yfirleitt döðlurnar frá Himneskt)
  • Hnetursmjör – lífrænt og hreint (ég nota Whole Earth, bæði gott að nota Crunchy og Smooth)
  • Vanillu extrakt dropar – hreinir og lífrænir – eða vanillukorn
  • Fínmalað sjávar-eða Himalajasalt
  • Kókosolía
  • Hlynsíróp (hreint og lífrænt) – má alveg sleppa eða nota aðra sætu t.d. stevíu
  • Lífrænt súkkulaði – 70-80% (vegan)
  • Ristaðar og léttsaltaðar salthnetur (líka hægt að nota pekanhnetur, pistasíuhnetur, kókosflögur, kókosmjöl, þurrkuð trönuber, gojiber og leyfa hugmyndafluginu að taka völdin)

Nota ca 20×20 cm kassalaga kökuform eða kringlótt kökuform, 25 cm í þvermál, set smjörpappír ofan í.

Karamellulag

1 og ½ bolli steinhreinsaðar og klístraðar döðlur

2 msk. Hnetusmjör

½ tsk. vanilluextrakt dropar

¼ tsk. fínmalað sjávarsalt (eða Himal­ajasalt)

Karamellulag – aðferð

Setjið döðlurnar, hnetusmjörið, vanilluna og sjávarsalt í matvinnsluvél og maukið þar til hefur blandast vel og áferðin er eins og litlir molar (sjá hérna fyrir ofan – ég hef líka notað bara töfrasprota, virkar alveg en tekur lengri tíma). Gott að nota pulse stillinguna en ég nota bara litla matvinnsluvél sem fylgdi með töfrasprotanum mínum.

Settu allt í kökuformið og notaðu hendurnar eða sleif til að þétta molana saman og ýta „karamellunni“ í jafnt lag út í allt formið. Setjið í frystinn í um 10 mín eða á meðan þið gerið millilagið.

Hnetusmjörslag

¼ bolli Hnetusmjör

1½ msk. Kókosolía

½ msk. Hreint hlynsíróp (maple syrup)

1/8 tsk. Fínmalað sjávarsalt (eða ­Himalajasalt)

Hnetusmjörslag – aðferð

Á meðan blandarðu saman hnetusmjörinu, kókosolíunni og hreinu hlynsírópi yfir vatnsbaði þar til blandan er mjúk og glansandi. Svo hellirðu þessari blöndu yfir karamellulagið með því að velta kökuforminu fram og til baka til að jafna lagið yfir. Settu aftur í frystinn í um 15 mín. eða þar til hnetusmjörslagið er alveg frosið.

Súkkulaðilag

¾ bollar lífrænt súkkulaði – 70%-80% (passa að það sé vegan, eða án mjólkurafurða)

1 tsk. kókosolía

1/3 bolli ristaðar og létt saltaðar hnetur, skornar í stóra bita. Best að nota salthnetur en til að gera uppskriftina hollari er sniðugt að létt­rista pekanhnetur, pistasíuhnetur eða kasjúhnetur og dreifa góðu sjávarsalti létt yfir súkkulaðið. Svo er hægt að láta hugmyndaflugið ráða og skreyta með gojiberjum, trönuberjum, kókosflögum eða öðru ljúfmeti.

Súkkulaðilag – aðferð

Á meðan bræðirðu súkkulaðið og kókosolíuna yfir vatnsbaði á lágum hita þar til súkkulaðið er mjúkt og glansandi – hræra í reglulega. Helltu bræddu súkkulaðinu yfir hnetusmjörslagið og færðu kökuformið fram og til baka svo yfirborðið verði jafnt. Dreifðu hnetunum yfir og frystu aftur í um 15 mín. eða þar til súkkulaðið er alveg frosið. Hafa þarf svolítið hraðar hendur í þessu skrefi – af því botninn er svo kaldur getur súkkulaðið harðnað ef þetta er ekki gert hratt og hneturnar ná ekki að festast.

Skerðu að lokum í hæfilega ferhyrninga eða þríhyrninga og geymdu í loftþéttu íláti í frystinum eða ísskápnum.

 

Passaðu svo að börnin eða aðrir heimilisbúar viti ekki af þessu í frystinum – því annars er ekkert eftir fyrir þig með kaffinu þegar þú kemur heim <3

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *