Eygló Gísladóttir er hæfileikaríkur ljósmyndari sem ég hef verið að fylgjast með í dágóðan tíma. Hún hefur tekið þátt í ýmiskonar áhugaverðum verkefnum og ég ákvað því að hitta hana í kaffi og spyrja hana spjörunum úr.

Af hverju valdirðu að læra ljósmyndun?
Ég hef alltaf haft áhuga á ljósmyndun og hef verið að taka myndir síðan ég var mjög ung. Foreldrar mínir áttu filmuvél sem ég stalst oft í og fór með í skólann til  þess að taka myndir af lífinu þar.

Í framhaldsskóla var ég ekki alveg að finna mig þar til ég rakst á eina gamla vinkonu sem var að læra ljósmyndun í Ljósmyndaskólanum.
Hún stakk upp á að ég ætti að prufa ljósmyndun. Stuttu síðar sá ég auglýsingu í blaðinu um laus pláss í ljósmyndunarnámi í sama skóla. Ég sótti um, fékk viðtal og komst inn! Ég hóf nám 2011 og kláraði síðan í febrúar 2014.

Hvað var þitt fyrsta verkefni eftir útskrift?
Mitt fyrsta verkefni var fyrir Reykjavik fashion festival sem var tæplega mánuði eftir útskrift. Verkefnið var tengt tímaritunum Bast magazine og Wild magazine sem var mjög skemmtilegt og þar fékk ég allar myndirnar mínar birtar.  Til gamans má nefna að ég var að flytja til L.A. á sama tíma og vann því úr ljósmyndunum í flugvélinni á leið út.

Nokkrar myndir sem hún tók á þessum tíma

Hvað varstu að gera í L.A. og varstu að vinna þaðan?
Kærastinn minn var að fara út í nám og ég ákvað að fara með.  Þar ferðaðist ég mikið og tók ljósmyndir fyrir sjálfa mig og tímarit.  Einnig var ég að vinna mikið með íslenska tímaritinu Nude magazine á þessum tíma og bjó meðal annars til nokkra myndaþætti fyrir þau. Ég vann líka í hönnunarbúð sem staðsett var í North Hollywood.  Síðan fluttum við heim til Íslands aftur veturinn 2015.

Hvar ertu að vinna núna?
Ég er sjálfstætt starfandi en er einnig á samning hjá Iceland creative artist management. Umboðsskrifstofa sem er í eigu Kára Sverris ljósmyndara og Guðbjargar Huldísar förðunarfræðings sem bjóða upp á sérsniðna þjónustu fyrir  þarfir hverns og eins kúnna en þau fókusera aðallega á erlendan markað.

Hvað er á döfinni hjá þér um þessar mundir?
Núna er ég að skipuleggja næstu mánuði undir myndatökur fyrir komandi brúðkaup og ásamt því að klára verkefni fyrir fríhöfnina í Leifstöð, Hildi Yeoman og Sölku Sól.

 

Myndir úr eldri brúðkaupstökum

 Hvaða verkefni ertu stoltust af?
Mér þykir vænt um öll verkefni sem ég geri en lokaverkefnið mitt í skólanum er eitt af því verkefnum sem ég er stoltust af. Þar blandaði ég saman því sem mér fannst þá skemmtilegast og leiðinlegast að mynda.  

Í því verkefni myndaði ég íslenskt fólk og íslenska náttúru og blandaði saman í klippimyndir.

Eitt af mínum áhugamálum er að búa til klippimyndir og að mynda fólk en landlags myndir voru á þeim tíma ekki í uppáhaldi hjá mér.  Því var gaman að sameina og búa til skapandi verk út frá því, læra að sjá og meta náttúruna í öðru ljósi.

                                                                               

 

Hvað finnst þér skemmtilegast við þína vinnu?
Það sem er skemmtilegast við mína vinnu er að hún er mjög fjölbreytt og enginn dagur eins.  Einnig er maður alltaf að vinna með og kynnast nýju fólki

Hvað myndirður segja að væri þitt einkenni í ljósmyndun?
Þegar ég vinn myndirnar legg ég áherslu á að þær séu náttúrulegar, rólegar og að  persónuleiki hvers og eins skíni fram. Mér finnst smáatriðin oft skipta máli og að myndirnar mínar séu skarpar og skýrar.

Hvað er framtíðardraumurinn?
Mig langar að bæta við mig meiri menntun í tengslum við t.d. markaðsfræði eða grafíska hönnun. Mér þætti líka spennandi að fara út fyrir landsteinana og prufa mig áfram þar.  Ég sé mig ekkert endilega einungis sem ljósmyndara, um daginn vann ég t.d. í verkefni fyrir Kára Sverris, bæði í framleiðslu og sem aðstoðarljósmyndari.  Eitt af mínum ábyrgðarverkum var að allir gætu unnið vinnuna sína sem best, það kom mér á óvart hvað mér þótti það skemmtilegt og krefjandi!

Myndirnar fyrir ofan eru bland af þremur verkefnum sem hún hefur gert, til að sjá alla myndir í hverjum myndaþætti þá mæli ég að kíkja á heimasíðuna hennar. Þetta er einnig eitt af örfáum verkefnum sem Eygló hefur gert og maður getur endalaust skoðað vefsíðuna hennar.

  Vefsíðan hennar er www.Eyglogisla.com . Hún notar síðuna sem portfolio og setur því einungis þær ljósmyndir sem hún telur endurspegla hana og hennar verk.

Ásamt vefsíðunni eru hún líka með skemmtilega tumblr síðu þar sem hún setur inn persónulegar myndir frá hennar daglega lífi. www.Eyglogisla.tumblr.com

TÉKK IT!

 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *