Þetta fléttuhvítlauksbrauð er eitthvað sem allir þurfa að smakka. Þetta er upprunalega pizzadeigsuppskrift en ég hef verið að prufa mig áfram með ýmis konar brauð og þetta er eitt af því besta. Ég hef bakað það oft þegar ég hef fengið vinkonur mínar eða fjölskyldu í heimsókn og hef þá haft pestó með eða mozarellaost, tómata og basiliku – það er alveg ótrúlega góð blanda. En eins og núna var ég með matarboð og eldaði kjúklingarétt og passaði þetta vel með honum. Þetta passar með öllu!

Hlutföllin eru alls ekkert eitthvað sem þarf að hafa áhyggjur af en ég er hætt að vigta hráefnin og sirka þetta allt og það hefur aldrei klikkað.

Uppskriftin er:

7 dl hveiti

1 tsk sykur

1 pakki ger

1/2 tsk salt

1 msk hunang (má sleppa)

3 dl sjóðandi heitt vatn

Það sem er svo ótrúlega þægilegt við þetta deig er að maður skellir þessu öllu saman í hrærivélaskál og hærir saman þangað til deigið er orðin að góðri kúlu. Þá leyfi ég deiginu að hefast í ca hálftíma. Síðan skipti ég deiginu í tvo parta og móta sjálf lengjur í höndunum í þá stærð sem ég vil hafa á brauðinu. Ég sker síðan tvær línur í deigið og flétta.

Næst er það hvítlaukssmjörið en það inniheldur smjör, raspaðan hvítlauk, olíu og oregano. Ég hita þetta saman í potti þangað til smjörið er bráðið og pensla allt brauðið vel.

Hvítlaukssmjör:

ca 80-100g smjör

2-3 röspuð hvítlauksrif

msk af olíu

tsk af oregano.

Ég hef brauðið inni í ofninum í ca 20 mínútur við 180° en það er auðvitað misjafnt eftir ofnum og gott að fylgjast með brauðinu og taka það út þegar það er orðið gullinbrúnt ofaná. Þegar ég tek brauðið út pensla ég það aftur með hvítlaukssmjörinu og það sem gerir punktinn yfir i-ið er að strá grófu sjávarsalti yfir brauðið.

 

    – Helga Sigrún –

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *