Kjúklingasósupastaréttur!

Ég eldaði þennan dýrindis kjúklingarétt á daetur snappinu í seinustu viku og ákvað að henda uppskriftinni hérna inn fyrir ykkur sem höfðu áhuga!

Það sem þarf í réttinn:

4 kjúklingabringur
6 stórar gulrætur
1 box af sveppum
2 box af hvítlauksrjómaosti
2 lauf af hvítlauk
1 kjúklingatenging
5 sólþurrkaða tómata úr krukku (ég nota gestus)
mjólk eftir smekk
5-6 böggla af hreiðurspasta (tagliatelle) en hægt er að nota hvaða pasta sem er.

Leiðbeiningar:
Ég byrja á því að skera kjúklinginn í bita sem ég steiki á pönnu og krydda eftir smekk, sjálf nota ég Season all en það er fínt að nota salt og pipar eða kjúklingakrydd í staðin. Á meðan kjúklingurinn er að steikjast byrja ég á að sjóða pastað, skera niður gulræturnar, sveppina, sólþurrkuðu tómatana og hvítlaukinn og set til hliðar. Ég sker gulræturnar í langa mjóa bita en saxa hvítlaukinn, sveppina og sólþurrkuðu tómatana en sveppina máttu hafa hvernig sem þú vilt, finnst bara svo skrítin áferðin á steiktum sveppum en bragðið gott svo ég reyni að hafa þá eins smáa og ég get!
Þegar kjúklingurinn er steiktur í gegn þá tek ég hann af pönnunni og steiki gulræturnar sér í sirka 5 mínútur og bæti síðan við sveppunum, hvítlauknum og sólþurrkuðu tómötunum.
Kjúklingurinn og rjómaostinum er svo hrært saman við þangað til osturinn bráðnar en þá helli ég örlítið af mjólk saman við svo þetta verður meira eins og sósa. Svo set ég kjúklingateninginn og leyfi þessu að malla í nokkrar mínútur.

Pastað er svo sett saman við sósuna en mér finnst persónulega mjög gott að hafa eitthvað grænt með eins og spínat, svo set ég pastað og sósugrojið yfir! NAMM.

Verði ykkur að góðu!

Sigrún Eva ♥

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *