Nú hef ég náð ágætis árangri í að breyta mínum lífstíl til hins betra og fæ ótrúlega mikið af spurningum um það, bæði á Facebook og Snapchat. Ég ákvað því að skrifa aðeins um mitt ferli hér!

Ég byrjaði að fitna þegar ég flutti að heiman, 19 ára, og bætti stöðugt á mig í nokkur ár án þess þó að taka mikið eftir því. Mér leið samt alltaf frekar illa og þegar ég hugsa til baka myndi ég halda að ég hafi verið á barmi þunglyndis. Árið 2014 byrjaði ég svo að hreyfa mig og líðanin batnaði mikið við það. Mataræðið var þó alltaf slæmt – djúsí máltíð öll kvöld og nammi í eftirrétt.

295502_10150342440020446_3678058_n401760_10150571244941264_842664978_n

21 árs

Í byrjun árs 2015 var ég svo komin með ógeð. Ég var í kringum 80 kg og var alls ekki ánægð í eigin skinni (ég er 160 cm notabene). Þá ákvað ég að skrá mig í fjarþjálfun í 3 mánuði og fara nákvæmlega eftir öllu sem mér var sagt að gera, sem ég og gerði. Þetta voru ansi miklar breytingar – en ég var búin að byrja svo oft á litlum skrefum (eins og er oft mælt með) að ég fann að ég þurfti að umturna mínu lífi ef ég ætlaði að ná árangri. Fyrir suma virkar að breyta mataræði smátt og smátt en ég var bara búin að reyna það svo oft og alltaf mistekist.

Margir sem hafa samband við mig og spurja hvað það var sem ég gerði eru líklega að leitast eftir auðveldri leið – en hún er ekki til! Þó svo að þú hafir þjálfara sem býr til matarprógram og æfingaplan þá er engin að fara að vinna vinnuna nema þú.

Ég hætti að mæta í endalausa spinningtíma og fór að lyfta 6 sinnum í viku. Það breytti öllu fyrir mig og mér fannst ég sjá árangur á hverjum degi. Ég hefði samt líklega ekkert vitað hvað ég ætti að gera hefði ég byrjað sjálf – þess vegna mæli ég alltaf með því að fólk finni sér einhverskonar æfingaplan eða hitti þjálfara ef það er að byrja í ræktinni. Síðan í janúar 2015 hef ég síðan mætt í ræktina 5-6 sinnum í viku og ELSKA það. Og þið sem eruð hræddar um að verða of massaðar við lyftingar.. í alvöru? Aukin vöðvamassi hækkar grunnbrennslu, stinnir húð og mótar líkamann!

2015-07-01-21-46-43

1.júlí 2015 – hálfu ári eftir að ég byrjaði

Hvað varðar mataræðið þá hætti ég öllu brauði, kexi, pasta, sætindum og fékk mér kanski smá nammi um helgar. Ég var meira að segja það dugleg að ég bjó mér oft til einhverskonar hollustunammi til þess að borða um helgar (pirrandi týpa, ég veit). Ég borðaði mikið af eggjum, grænmeti, ávöxtum, salati, möndlum, hummus og þess háttar. Það má eiginlega segja að ég hafi byrjað á lágkolvetnamataræði, án þess þó að pæla of mikið í því. Mig minnir samt að það hafi aldrei verið neitt rosalega erfitt. Ég hékk á Pinterest tímunum saman og skoðaði uppskriftir og var alltaf að prófa eitthvað nýtt í eldhúsinu. Svo minnkaði ég skammtana mína töluvert og borðaði mig aldrei pakksadda.

Hollt og gott mataræði er nefnilega ekki eins flókið og margir halda. Ef mataræðið er nokkuð hreint, óunnið og inniheldur mikið af grænmeti og ávöxtum og grænmeti – þá inniheldur það færri hitaeiningar og við grennumst! Svo einfalt er það.

Ég náði að viðhalda þessum lífstíl eftir 3 mánuði í fjarþjálfun og fór að bæta inn ýmsum matartegundum hér og þar. Í desember 2015 voru einhver 15 kg farin og ég ákvað að hafa samband við þjáfara og keppa í módelfitness páskana 2016 – sem ég svo gerði.

12900037_10153936496261877_247494004_n12910970_10153936496236877_1192213555_n

Það eru því margir búnir að sjá þessa árangursmynd af mér og halda kanski að þetta sé eðlilegur árangur á rúmu ári – ÓNEI. Svona lítur fólk ekki venjulega út og ég lít sko ALLS EKKI svona út í dag, langt í frá. Ég fór mögulega allt of geyst í þetta allt saman og ég mæli ekki með fitnesskeppnum fyrir fólk sem er nýbúið að breyta sínum venjum til hins betra. Þetta gerði það að verkum að ég fór aftur að eiga óeðlilegt samband við mat, hreyfingu og þá sérstaklega spegilinn. Ég sé samt ekki eftir því að keppa, það kenndi mér helling og ýtti mér útí námið sem ég er í í dag. Ég er líka ótrúlega stolt af þessu.

14409337_10154413069451877_25460492_n

Í dag er ég að vinna í því að finna mitt jafnvægi, það er nefnilega milljón sinnum erfiðara að viðhalda þyngdartapi heldur en að missa þyngdina til að byrja með. Ég hreyfi mig og borða hollt vegna þess að ég vil vera heilbrigð og hugsa vel um líkama minn, ekki til að sjá einhverja tölu á vigtinni eða passa í einhverjar buxur. Ég er líka að vinna í því að vera sátt við sjálfan mig eins og ég er, það hefst allt með tímanum. Markmiðin mín snúast fyrst og fremst að hreyfingunni sjálfri og mataræðinu – ekki útliti.

2016-10-15-12-50-24

Ykkur er alltaf velkomið að senda mér spurningar, hér eða á Snapchat -> liljarunj

Þangað til næst,

Lilja Rún

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *