Eins og það skiptir máli að nærast fyrir æfingar, skiptir það ekki síður máli að nærast vel eftir æfingar – og hreyfingu af öllu tagi.

Þegar við æfum er líkaminn að tæma kolvetnabyrgðir sínar og brjóta niður prótein. Eftir æfingu vill líkaminn fylla aftur á kolvetnabyrgðir og endurbyggja próteinin. Með því að borða prótein og kolvetni eftir æfingu er því verið að minnka niðurbrot vöðva, auka vöðvavöxt, fylla á kolvetnabyrgðir og flýta fyrir endurheimt. Það er því ekki bara mikilvægt fyrir fólk sem er að reyna að bæta á sig vöðvum að passa upp á næringu eftir æfingar, eing og kanski margir halda. Það hefur nefnilega líka áhrif á næstu æfingu sem er tekin og hvernig líkaminn jafnar sig eftir æfingar.

Prótein

Eftir lyftingar er sérstaklega mikilvægt að borða próteinríka máltíð. Þá fær líkaminn þær amínósýrur sem hann þarf til að gera við og byggja upp próteinin sem voru brotin niður á æfingunni. Próteinneysla eftir lyftingar er mikilvæg til vöðvauppbyggingar. Það er samt algjör óþarfi að troða í sig eins miklu próteini og hægt er – við þurfum ekki svo mikið.

 hard-boiled-egg-1

Kolvetni

Við þol- og brennsluæfingar tæmast kolvetnabyrgðir hraðar en við styrktaræfingar. Einstaklingar sem stunda þolíþróttir, hlaup eða þess háttar þurfa því að innbyrða meiri kolvetni en þeir sem stunda einungis lyftingar. En eftir alla hreyfingu, hvort sem um er að ræða hlaup eða lyftingar, þarf að endurhlaða kolvetnabyrgðir  – þá sérstaklega fyrir fólk sem hreyfir sig oft og mikið.

8-ways-to-maximize-your-post-workout-recovery-v2-3

Fita

Það er ekki nauðsynlegt að fá fitu beint eftir æfingar en alltaf gott að innbyrða góða fitu í máltíðum dagsins.

Tímasetning

Það er auðvitað lang best að reyna að borða innan við 30 mín frá æfingu, þá er líkaminn móttækilegastur fyrir næringu og endurheimt verður betri. Þetta þarf auðvitað ekkert að vera stór máltíð, sérstaklega ef máltíð fyrir æfingu var stór. Þá er alveg nóg að skella í sig smá snarli. Mikilvægast er samt að láta ekki allt of langan tíma líða og passa upp á að fá bæði kolvetni og prótein (hlutfall ca. 4:1) og drekka nóg af VATNI.

egg-serrano-ham-breakfast-sandwich-honey-figs

Fyrir þá sem halda að próteinsjeik sé það eina sem virkar eftir æfingu – ÓNEI. Það er svo sannarlega hægt að ná árangri með því að borða mat. Matur, sem þarf að tyggja, er mun saðsamari en margir fljótandi drykkir vegna þess að þegar við tyggjum fær heilinn fyrr upplýsingar um seddu. Það er skuggalega lítið mál að blanda sjeik eftir æfingu sem inniheldur hátt í 1000 hitaeiningar. Það er auðvitað mjög sniðugt fyrir þá sem vilja bæta á sig en fyrir þá sem eru að reyna að grennast er sjeik með próteini, hnetusmjöri og möndlumjólk ekki besta leiðin.

Þangað til næst,

Lilja Rún

Snapchat: liljarunj

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *