Fyrir stuttu …og ekki stuttu bloggaði ég um það að strákurinn minn væri öðruvísi en hin börnin….

Nú er allt búið að vera á fullu seinustu mánuði – heimsóknir, læknisferðir, greiningar og ég gæti talið endalaust upp. En lokaniðurstaðan er komin og Baltasar er einhverfur.

Það hafa svo margir spurt mig og  mér fannst þið eiga inni hjá mér að fá að vita meira um þetta. Þetta var semsagt lokaniðurstaðan – einhverfa. Í augnablikinu er allt stopp því það eru sumarfrí, en strax í haust finnum við leikskóla sem hentar Balta en hann getur ekki farið á ,,venjulegan” leikskóla. Við ætlum að finna leikskóla sem hefur starfsfólk sem sérhæfir sig í að hjálpa börnum með greiningar og við hlökkum mikið til að finna góðan stað þar sem Balti fær að blómstra. Það sem við þurfum fyrst og fremst að gera er að finna leið fyrir hann til þess að tjá sig. Elsku Baltasar er búinn að vera svo duglegur og hann hefur mikið þroskast – hann vill endalaust knús og kyss – á hans forsendum.

Við höfum mikið verið á ferð og flugi með krakkana, 2 ferðir til Íslands í einum mánuði en þau hafa staðið sig svo vel og allt hefur gengið eins og í sögu.

Ég hef verið í smá lægð á þessu ári. Mér finnst allt svo yfirþyrmandi og erfitt. Mér finnst erfitt að skilja ekki barnið mitt og mér finnst erfitt að vera spurð að þvi hvað sé í gangi með hann. En ég veit að allir meina vel og auðvitað spyr fólk, því hvernig ætti það annars að vita?

En þetta er staðan í dag. Ég ætla að finna mér bækur sem fjalla um uppeldi einhverfra barna og ná mér í meiri þekkingu, því ég held að partur af þessu stressi mínu og leiða er það að ég bara veit ekkert hvað ég er að díla við.

Ég ætla að reyna að ná mér upp og drífa mig áfram í lífið – það þýðir ekkert annað!

Ég skrifa kannski meira seinna – þetta er fínasta útrás!

XX

DRÍFA

 

One comment

Reply

Þú ert algjör hvunndagshetja elskan og stendur þig svo frábærlega í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *