Nú er farið að síga á seinni hlutann á þessu sumri og því um að gera að ná inn einni útilegu í viðbót áður en rútína haustsins tekur við aftur!

Ég held að flestir íslendingar hafi gert sér ferð norður einhverntíman á lífsleiðinni en rekst ég þó reglulega á fólk sem hefur nánast ekki farið lengra út fyrir Höfuðborgarsvæðið en Selfoss, Borganes og Reykjanesbæ. Einu sinni var ég spurð af manneskju úr Reykjavík í mikilli einlægni “hvort okkur Akureyringum finndist ekki skrítið að koma til Reykjavíkur og sjá öll stóru húsin og svona”. Jú við í torfkofunum hérna fyrir norðan fáum almennt bara algjört menningarsjokk bara við það að horfa á fréttirnar og sjá öll þessi flottheit sem Höfuðborgin hefur uppá að bjóða. ?

En þessi pistill er nú ekki ritaður til að vera með landsbyggðarleiðindi heldur til að segja ykkur aðeins frá því hvað er í boði hér á norðanverðu landinu næstu vikur.

Ég áttaði mig reyndar á því á meðan ég ritaði þennan pistil að það er ótrúlega mikið í boði og varð hann því mun lengri en ég ætlaði!

Það er alltaf mikið um að vera hér í ágúst og ætla ég að segja ykkur aðeins frá því hvað er í boði og vonandi í leiðinni gefa ykkur einhverjar skemmtilegar hugmyndir af því hvað hægt sé að gera í fríi hér fyrir norðan.

Eins og flestir vita er verslunarmannahelgin núna um helgina. Akureyri var lengi þekkt fyrir hátíðina “Halló Akureyrir” sú hátíð var blessunarlega lögð niður fyrir nokkrum árum en í dag heitir hátíðin “Ein með öllu” og í fyrra bætist við Íslensku sumarleikarnir, þar sem eru í boði allskyns námskeið og keppnir í hinum ýmsu greinum t.d kirkjutröppuhlaupi, down-hill hjólreiðum, strandblaki og fleiru. Ein með öllu er fjölskylduhátíð og er margt skemmtilegt í boði fyrir allan aldur. Hægt er að lesa meira um hátíðina í ár hér.

Ein með öllu er þó ekki eina hátíðin um Verslunarmannahelgina hérna fyrir norðan en Síldarævintýrið á Siglufirði verður einnig á sínum stað. Dagskránna þeirra má finna hér.  Mikil uppbygging hefur átt sér stað á Siglufirði undanfarin ár og er guðdómlega fallegt þarna og algjörlega þess virði að gera sér ferð þangað þó það sé ekki nema bara til að skella sér í bakaríið og fara smá útsýnisrúnt.


Jólahúsið og eplakofinn

Dagana 10-13 ágúst er svo hin árlega Handverkshátíð á Hrafnagili. Þetta er einn af mínum uppáhálds viðburðum á árinu. Þarna koma saman tugir hönnuða og setja upp bása og sýna og selja vörurnar sínar ásamt ýmsum uppákomum.
Facebook síðu hátíðarinnar má finna hér
Ég mæli svo mikið með þessari hátíð! Það er líka kjörið að taka með sér tjald og tjalda á tjaldstæðinu á Hrafnagili. Hrafnagil er í 10 mínútna fjarlægð frá Akureyri, þar er æðisleg sundlaug, dásamlega fallegt umhverfi og hið víðfræga Jólahús sem er alltaf gaman að koma í er hinu megin við götuna!

Þessa sömu helgi er svo einnig Fiskidagurinn mikli á Dalvík. Dalvík er einungis í 25 mínútna fjarlægð frá Akureyri og því um að gera að slá tvær flugur í einu höggi og skella sér á báðar þessar hátíðir.
Dagskráin yfir fiskidagshelgina er rosalega stór, það er mikið um að vera alla dagana frá morgni til kvölds fyrir alla aldurshópa. Það eru skemmtiatriði, tónlistaratriði, matur, sýningar, andlitsmálun, Solla stirða og félagar úr Latabæ, tónlistaratriði, ferskfiskasýning og fleira og fleira. Svo auðvitað stóru tónleikarnir á laugardagskvöldinu þar sem mikið af helstu tónlistarmönnum landsins koma fram og setja saman flottustu tónleika ársins á hverju ári. Það sem er líka rosa stór kostur við Fiskidaginn er að það er allt FRÍTT sem er í boði.
Heimasíðu fiskidagsins má finna hér.

Helgina 25-26 ágúst er svo Akureyrarvaka. Þar er alltaf skemmtileg dagskrá sem endar með glæsilegum tónleikum á laugardagskvöldinu. Hægt er að fylgjast með hátíðinni hér, en dagskráin verður kynnt fljótlega.

Norðurlandið hefur þá einnig margt uppá að bjóða annað en þessar hátiðir svo það er alltaf tilefni til að skella sér norður.


Sundlauginn á Hofsósi
Myndin er fengin af Facebook síðu sundlaugarinnar

Ef þið eruð í fríi hér fyrir norðan er líka stutt að fara í allskyns dásamlegar náttúruperlur. T.d. Jarðböðin á Mývatni, dimmuborgir, Goðafoss, sundlaugina á Hofsósi og fleira. Ég mæli með að kíkja við hér til að fá fleiri hugmyndir.

Akureyri hefur svo að sjálfsögðu ýmislegt uppá að bjóða hvort sem þú ert á leið í frí með fjölskyldunni, djammferð með vinkonunum eða kósýferð með makanum.
Hér eru nokkrir hlutir sem ég mæli með:


Nýju rennibrautirnar
Myndin er fengin af Facebook síðu sundlaugarinnar

Sundlaug Akureyrar er algjör draumur fyrir alla. Þar eru tvær 25 metra laugar, heitir pottar, bæði stórir og litlir, barnalaug, gufubað og nýlega voru opnaðar þrjár nýjar rennibrautir og þar á meðal stæðsta rennibraut landsins. Ég hef ekki komist í að prufa þessi nýju tryllitæki sjálf enþá, en hef heyrt að þetta sé algjör snilld …þó maður sé á þrítugsaldri.

Það er líka yndislegt að skella sér í Listigarðinn í góðu veðri, gaman er að labba þar um og skoða allan fallega gróðurinn, fá sér kaffi og veitingar á krúttlega kaffihúsinu, eða tilla sér á túninu með nesti, svo eru líka fallegir gosbrunnar sem er vinsælt að dýfa litlum tásum í.

Kjarnaskógur er draumastaður fyrir börn og leikglaða fullorðna. Þar eru skemmtilegar gönguleiðir og er vinsælt að fara þangað og ganga eða hlaupa. Það eru einnig tvö leiksvæði fyrir börn, renniróla, strandblaksvöllur, stór opin tún, lækir og brýr, risa stór dekkjaróla og nú nýlega bættist við risa stór “lofttrampolíndýna” sem að undirrituð getur ekki beðið eftir að prufa!


Akureyri Backpackers
Myndirnar eru fengnar af google

Akureyri á líka mikið af dásamlegum veitingastöðum, og má þar helst nefna Rub23 sem sérhæfir sig í sjáfarréttum og sushi, staðurinn er í dýrari kanntinum en algjörlega þess virði. Stemmningin er meira “fancy fullorðins” nema þú eigir barn sem er sólgið í sushi. Akureyri Backpackers er líka í miklu uppáháldi hjá mér. Backpackers er hostel, veitingastaður og bar þar sem maður finnur fólk frá öllum hlutum heimsins. Starfsfólkið er æðislegt og frá mörgum mismunandi löndum, maturinn er góður og drykkirnir á góðu verði. Um helgar má stundum finna lifandi tónlist á staðnum eða hinn stórskemmtilega DJ VélArnar.
Ef þú ert í kokteila stuði er Múlaberg staðurinn fyrir þig. Þar er hægt að sitja bæði inni, þar sem er líka fallegur veitingastaður eða úti á verönd og njóta í sólinni.
Ef þú ert að leita að stað til að fara með fjölskylduna er Bryggjan fullkomin. Staðurinn er staðsettur við höfnina og er í ótrúlega skemmtilegum stíl. Þau eru með frekar breitt úrval af réttum og bjóða einnig uppá ótrúlega góðar eldbakaðar pitsur.

Mikið er af öðrum frábærum veitingastöðum og má finna lista yfir þá hér.

Mig langar þó að nefna einn stað í viðbót sem opnaði í gær og ég er rosalega spennt fyrir. Staðurinn heitir Aleppo Kebab og er i göngugötunni (miðbænum). Staðurinn er rekinn af Khattab Almohammad sem er flóttamaður frá Sýrlandi. Ég náði ekki að koma við sjálf í gær til að smakka en mér sýnist á facebook síðunni þeirra að fólk sé hæst ánægt bæði með matinn, þjónustuna og verðið. Staðurinn býður uppá Falafel, Kebab, Shawarma, Baklava og fleira. Þetta er ótrúlega skemmtileg viðbót við matarflóruna á Akureyri að mínu mati og var algjörlega orðið þarft að koma með eitthvað nýtt og öðruvísi!

Ég vona að þetta reynist einhverjum ganglegt og þið komið og heimsækið paradís norðursins og allt sem hún hefur uppá að bjóða!

Þangað til næst,
xx Katrín Mist

Ég er á Instagram undir katrinmistharalds fyrir áhugasama.

 
katrinmistharalds

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *