Strákurinn minn átti að vera stelpa….

file_001

Ég skrifaði pistil fyrir stuttu síðan sem að fékk mikil og góð viðbrögð á netinu sem og kaffistofum landsins.  Skrifaði ég þar um mín fyrstu viðbrögð við óléttunni. En mig langaði ekkert í barnið mitt til að byrja með. Pistilinn getið þið lesið í heild sinni hér *.
Þessi pistill er svo til beint framhald af þeim, en með kómískara yfirbragði.

Fólk sem ég hitti vill oftast vita hvað ég sé komin margar vikur og hvort kynið barnið sé. 

Til að byrja með (þegar ég var enn að melta þetta allt) sagði ég alltaf við fólk að stelpan mín væri strákur…!
Nei ég á ekki í það góðu sambandi við barnið mitt að það hafi nú þegar sagt mér frá komandi kynleiðréttingarferli.

Það tók mig langan tíma að melta það að ég ætti von á barni sem að ég var engan vegin tilbúin fyrir. En þegar leið á meðgönguna þá var tilhugsunin farin að verða svolitið skemmtileg. Ég sá fyrir mér að ég myndi eignast litla útgáfu af sjálfri mér. Sem að mörgum þætti ekki jafn sniðugt og undirritaðri. Sá fyrir mér litla Hrefnu Líf sem að yrði alveg eins og ég á mínum yngri árum. Sem dæmi um mig á mínum yngri árum:

file_000

Hrefna Líf 2 ára. 

*Ég var byrjuð að syngja heilu textana við lög áður en ég gat talað.

*Ég klæddi mig sjálf í föt og fékk mér að borða 2 ára og labbaði svo til nágranna stelpunnar og bað hana að passa mig þar sem að mamma hafði verið á næturvakt. Eftir 2 skipti var mamma mín þó búin að setja barnalæsingu, þannig sjónvarpið var mín pössunarpía eftir það.

*Ég spurði alla, þá meina ég ALLA hvað þeir væru með í laun þegar ég var 4 ára gömul. Því að ég vildi vera viss um að ég ætti sko fullt af peningum þegar ég yrði stór svo ég gæti keypt stórt hús fyrir mömmu mína. Dæmi: hárgreiðslukonuna mína, strætóbílstjórann, dagmömmuna mína og lækninn minn. Mömmu minnar til mikils ama.

*Ég skammaði fólk sem hringdi fyrir hádegi um helgar þegar ég var 4 ára gömul. Því að mamma mín væri sko sofandi eftir næturvakt og hún þyrfti að sofa og skellti á!

En þrátt fyrir að hafa verið ákaflega sjálfstæður og glaðlyndur krakki þá fannst mér líka þar sem að kærastinn minn hafði átt strák frá fyrra sambandi að það væri sanngjarnt að hann fengi nú stelpu næst. Sérstaklega þar sem að ég ætlaði nú ekki fyrir mitt litla líf að ganga með annað barn!

file_006

Það var svo í 20.vikna sónarnum. Mamma fékk að koma í stað kærastans, þar sem hún var mögulega aðeins of spennt fyrir sínu fyrsta barnabarni. Ég var búin að gera ráð fyrir að þetta tæki bara svona 10-15 mínutur. Ég legðist á bekkinn, ljósan myndi sjá á 10 sek á stelpan mín væri fullkomlega heilbrigð og að ég mætti drífa mig heim svo ég gæti nú skellt sónarmyndunum af Apríl beint á Facebook. Já gleymdi ég að segja það? Við vorum semsagt komin með nafn. Ætluðum fyrst að kalla barnið eitthvað hlutlaust og krúttlegt. En þar sem við vorum bæði búin að ákveða á viku 14 að þetta yrði stelpa. Þá myndi hún fá að heita Apríl, enda getin í Apríl.

Ljósan gaf mér enga flýtimeðferð þennan daginn. Enda tók hún sér góðan tíma í að sýna mér allt sem að væri í gangi þarna inni. En allan tímann var ég bara bíða eftir að hún myndi segja mér hvort að Apríl væri ekki örugglega stelpa??  Í lokin spurði hún hvort hún ætti að skrifa kynið á miða fyrir okkur. Ég bara nei nei er þetta ekki stelpa?

Ljósan sagðist aldrei geta sagt til 100% um kynið, en að í mínu tilviki færi það varla framhjá henni þar sem að drengurinn var sko ekkert að fela sitt heilagasta. Ég man að ég hugsaði bara ha nei er Apríl með pung? Og mamma spurði ljósuna hissa: ,,Ertu viss?”. Svo horfðum við mæðgurnar bara á gáttaðar á hvor aðra og löbbuðum stjarfar út í bíl. Þar sem ég hringdi í kærastann og tilkynnti honum að Apríl væri í raun strákur!

En svo eins og samfélagsmiðla dívan sem að ég er. Rataði sónarmyndin beint inn á Facebook með yfirskriftinni ,,Þegar strákurinn þinn er í raun stelpa!”.Þar sem meirihlutanum þótti þetta mjög fyndið. Enda var ég ekki búin að fara leynt með það að ekki annað kæmi til greina en að bumbubúi væri stelpa. En svo eins og í öllu skiptist fólk í 2 fylkingar.

1. Fylkingin sem að tengdi svo vel við þetta hjá mér og sögðust hafa gengið í gegnum það sama.

2. Fylkingin sem að gat ekki með nokkru móti skilið að ég væri ekki sátt með að eiga von á heilbrigðu barni og að ég hafi í alvörunni viljað eitthvað eitt ákveðið kyn. (sagt á innsoginu).

Fólk setur dæmið oft þannig upp eins og það komi ekkert annað til greina en að vera bara ánægður að geta yfir höfuð átt barn og maður eigi að vera þakklátur fyrir öll svona kraftaverk.

Já ok gott og blessað með það. En ég er kannski bara ómöguleg manneskja! Sem dæmi mér til varnar, þá elska hunda og öll dýr ef út í það er farið. Ég myndi elska hvaða hund sem að ég myndi fá mér. En ég segi það ekki að ég yrði miklu glaðari að fá bolabít heldur en t.d. púðluhund. Ekki vegna þess að lífið með púðlanum yrði verra. Heldur bara á þeim tímapunkti sem að ég var að velja mér hund fannst mér persónuleiki og útlit bolabíts passa betur inn í mitt líf. Mig hefur alla ævi dreymt um að eiga hávaxinn dökkhærðan kærasta. En viti menn, kærastinn minn er rauðhærður og bara örlítið hærri í loftinu heldur en ég. En ég er alveg jafn hamingjusöm og ég hefði verið með dökkhærða prinsinum mínum. Ég er eflaust komin út fyrir efnið að einhverju leiti. Og get ekki sagt að val mitt á hundategundum og kærasta efni sé á pari við mitt eigið erfðarefni. En líka bara til að sýna að maður ræður ekkert við sínar eigin væntingar. Mig langaði í stelpu fjandinn hafi það! Þarf ég eitthvað að skammast mín fyrir það? 🙂 

file_000

Mynd tekin fyrir 2 mánuðum síðan. Þá var Apríl var komin með strákanafn.

P.s. í dag eru bara nokkrar vikur í að drengurinn láti sjá sig og mér gæti ekki verið meira sama þótt að stelpan mín sé strákur. Það er alltaf hægt að gera betur í næstu umferð 😉

Þangað til næst :*

Hrefna Líf
snapchat: hrefnalif

4 comments

Reply

BRAVA!! Allir eiga rétt á sínum eigin tilfinningum og skoðunum – Og Auðvitað frelsi til að tjá sig um þær, sama hver þær eru! 😀

Finnst svo hryllinga hressilegt að sjá þín Snöpp Hrefna!! You are Brilliant 😀 Thumps Up! ooog ég var bara hlusta á þetta lag, þannig ég set það hérna- svo þetta verði gasalega mushy hjá mér:) https://www.youtube.com/watch?v=rExJ6j5OeCo

XOXO

Reply

HAHAHAH þú ert æðibiti! Just the way you are!

Reply

Vá ekkert smá skemmtileg lesning og maður tengir við svo margt.
Gaman þegar fólk þorir að segja upphátt það sem margir hugsa.

Beautiful

Reply

Verð bara að segja þér, eftir að lesa þennann pistil og hinn sem á undan var, að þig langaði ekkert í barnið þitt, MÉR FINNST ÞÚ ALVEG FRÁBÆR. Svona vildi ég ´óska að ég hefði verið, opin og ákveðin í því sem ég vildi. Jú ég glímdi og glími enn við þunglyndi en hef tök á því núna sem ég hafði ekki áður fyrr, því þá vara bara sagt að ég væri fýlupúki og ætti að venja mig af svona veseni hahahahaha segðu !!!
En ég dáist að þér og finnst þú bara alveg frábær manneskja að gera það sem þig langar að gera – þetta er jú þitt líf og ekki annarra, ekki satt?
Haltu áfram á þessari frábæru braut og vertu samkvæm sjálfri þér.
Ég hlustaði á snap-iðð þitt í gærkvöldi vegna þess að dóttir mín lét mig vita af því, fannst það líka frábært (og ákvað að lesa hér eftir það.
Ætla að fara að hlusta og horfa á snappið sem kom í dag.
ég óska þér sko alls hins besta í framtíðinni og vona að allt gengi þinn veg 😉

Knús kveðja
Þóra

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *