15127327_10153967176455796_1244029609_o

Fyrir 5 mánuðum eignaðist ég frumburðinn minn og haldið ykkur fast því já, þetta er ein af þessum klassísku mömmufærslum í öllu sínu veldi!

 

Hún er hinsvegar ekkert rosalega dramatísk (eða kannski á köflum, skautið framhjá ef ekki leynist lítill bold and the beautiful aðdáandi inn í þér). Ég nefnilega er ein af þeim heppnu. Við parið sem áttum íbúð, búin að vera saman í 4 ár, ferðast saman, fara í alla þá djammsleika sem parasamband þolir saman, klára djammpakkann saman, langt á veg komin í námi og bæði bara almennt glöð, kát og heilbrigð umfram allt, ákváðum að búa til barn og það tókst án vandkvæða með heimaleikfimina eina að vopni. HEPPIN. Heppnin elti okkur áfram þegar fæðingin gekk áfallalaust fyrir sig og út kemur þessi stóri stælti heilbrigði gulldrengur og upprennandi fótboltastjarna (orð pabbans sko). Svo var það brjóstagjöfin, jújú hún skotgengur og við eigum einn vel búttaðan bobbasjúkan strák sem rýkur úr grasi.

 

Lífið er lukka

 

En að efni dagsins, daginn eftir getnað, nei djók ég er að ýkja… 8 mánuðum FYRIR getnað var ég komin á fullt í heimildarleit svo ég hefði við nóg að styðjast þegar við myndum hefja okkar fullkomna fjölskyldu líf og hámarka þannig hamingju okkar allra. Ég fór á alla helstu gagnagrunna sem geyma svona upplýsingar eins og pinterest, facebook á óléttu og mæðra hópa og instagram auðvitað. Þar má sko finna myndir og sögur af hamingju! Eða hrylling ef út í það er farið, ég lærði t.d. mína lexíu að spyrja aldrei á fb hóp hvort einhver hefði farið að láta hreyfa við belgnum, það var ekki jafn vont og lýsingarnar þaðan en takk fyrir viku kvíðann fyrir belgpotið.

Ég fann góðar heimildir fyrir því hvernig óléttumyndir ég ætlaði að taka og svo um leið og hann fæddist myndi ég taka aðra mynd af okkur saman, þið vitið eina af honum inni í bumbunni daginn áður og svo eina utan bumbu daginn eftir. Ég var nefnilega svo hress þarna daginn eftir að ég átti 19 merku barnið mitt… Viti menn, það leið ekki á löngu áður en tárin byrjuðu að streyma. Ég grenjaði marga daga á meðgöngunni af því við gleymdum að taka bumbumynd, ég hafði nefnilega séð svo sniðuga hugmynd á youtube þar sem maður einnar hafði tekið eina mynd á hverjum degi meðgöngunnar sem eftir á hyggja hugsa ég að hafi verið ljósmyndari að mennt.

15102015_10153968238775796_1470680019_oMér tókst semsagt aldrei að taka umrædda mynd en ég náði alveg nokkrum sem sýna kúluna, ekki það að hún hefði farið framhjá neinum þarna. Og já ég raðaði skónum fyrir myndatökuna. Ekki leyfir maður instagram að sjá óreiðu á skóhillunni sinni?

 

Já maður minn hvað ég ætlaði að spamma vegginn minn, setja inn fullkomnar mánaðarmyndir með tölustöfum á frumlegasta máta sem fésbókin hefur augum litið, hið fullkomna facebook barna og fjölskyldu líf skyldi líta dagsins ljós við komu frumburðarins okkar sem yrði mestur og bestur og fallegasta barn, æji þið fattið… Ekki nóg með það að ég ætlaði alla leið á fb þá ætlaði ég sko líka að vera fullkomin mamma í raunheimi og dansa hér um á þyrnarlausum rósum, prumpa glimmeri og regnbogum alla daga

Svo kom barnið, tárin héldu áfram að streyma, þegar ég gleymdi að taka mynd eða datt ekki í hug nein einasta frumlega hugmynd af viku og svo mánaðar tölum til að hafa á mynd með krakkanum. Herbergið hans var ekki alveg tilbúið, það átti eftir að hengja upp hanka. Fyrir… öll fötin hans? Ég veit ekki hvernig en mér tókst að grenja yfir því líka. Í stuttu máli, 14 og 1/2 mánuðir af óléttu og móður hlutverki = rosalega mörg tár og einn tárvotur unnusti í fullri vinnu við að hugga ungabarn og konu.

Skírnarkakan?

Jú blessuð veriði haldið þið ekki að ég hafi ekki grenjað duglega yfir henni líka? Jú, sannarlega. Ég ætlaði nefnilega að baka rosalega flotta stóra fondant köku alein (internetið sagði að það væri ekkert mál!) og fá svakalega mörg hrós fyrir hana á öllum samfélagsmiðlum og í raunheimi. Þessa köku ætlaði ég að baka kvöldið fyrir skírn. Ég byrjaði vel, bakaði köku í 8 umferðum sem endaði jafn stór og hálfur fótboltavöllur. Ég setti hana á heimagerðan platta úr seríóskössum (sem eins og þið getið ímyndað ykkur var ekki nógu stíft undirlag fyrir 12 kg köku) og tróð fondant yfir hana þannig að kakan endaði eins og gamall hrukkóttur ferkantaður rass. Mér var allri lokið. Ég var ein heima með barnið sem grét yfir ástandi móður sinnar sem sjálf stóð grenjandi yfir þessari köku og ákvað að ég gæti mögulega þurft aðstoð. Ég hringdi á neyðarlínuna, þau sögðu mér að hætta að gera at, eða þið vitið ég gerði það náttúrulega ekki en ég hringdi í fjölskyldu neyðarlínuna og mætti til systkina minna með tárvota kökuna og nýja framleiðslu á tárum sem spíttust í allar áttir. Á þessum tímapunkti getið þið rétt ímyndað ykkur að systkini mín og mágkona þurftu að hafa sig öll við að fara ekki að grenja úr hlátri.

Jæja allt er gott sem endar vel og örstuttu seinna leyfði ég þeim að hlæja og hló með þeim. Ég lærði nefnilega dýrmæta lexíu á þessu köku havaríi, það er ekkert gaman að standa einn í eldhúsi með óvært grenjandi ungabarn í annarri bara til þess að fá like á instagram (þótt ég sjái Sigrúnu Sigurpáls algjörlega gera þetta svona, hafið þið séð fondant kökurnar hennar? Mín átti sko að verða þannig…). Það er hinsvegar GAMAN að vera með fjölskyldunni sinni að baka þess vegna ljótar en góðar kökur og hlæja að hrukkurassa fondant kökum.

15133987_10153968238770796_988977558_o 15126002_10153967184025796_532135689_o 15127357_10153967184030796_1455271349_o

Hér má sjá hvernig kakan átti að verða – Hvernig hún var eftir mína útreið og svo hvernig hún endaði með aðstoð góðra

Nú er ég ekki að segja að Instgram og facebook séu 100% valdur allra tárana. Ég eignaðist líka bara ungabarn sem svaf ekki 24/7. Ég var í 100% námi og 20% vinnu nánast þangað til ég var gengin 40 vikur og byrjaði aftur í 100% námi með hann 3 mánaða og bara á brjósti. Ég er ósofin, með brjóstaþoku og með tilfinningar út um allt, eins og fylgir þessu barnastandi.

Sem sagt, samfélagsmiðlar ýttu klárlega undir væntingar mínar að ég gæti sinnt 100% námi, nýju barni, orðið innanhúsarkitekt, bakari, tískumógull og ediksþrífandi Sólrún Diego þess á milli EN ég er líka fullorðin kona og tek þessu öllu með góðum fyrirvara. Ég nota þessa miðla og hef gaman af þeim, það er nákvæmlega til þess sem þeir eru þarna, okkur til dægrastyttingar.

Svo fékk ég líka fínar, GERANLEGAR hugmyndir á pinterest, þessi nafnaborði var stutt föndur sem kom svo vel út

15126141_10153967183955796_34004087_o

 

15134127_10153967176255796_862057253_oHérna erum við öll saman, fullkomin instagram fjölskylda. Hélduð þið að ég væri undanskilin samfélagsmiðla lífsstílnum? Ónei vinir mínir nær og fjær. Þarna setti ég upp varalit í stíl við laufin í þeim einskæra tilgangi að taka haust fjölskyldumynd. Hver kannast ekki við það…

 

 

 

 

 

Eftir köku fíaskóið ákvað ég að forgangsraða aðeins hjá mér sem hefur gengið vel suma daga, aðra daga flæða ennþá tár sem gætu fyllt skúringarfötu(r) og þá er sko eins gott að eiga einn Atla sér við hlið og lítinn Benjamín til að knúsa. Orðið nógu væmið fyrir ykkur?

Allt í lagi ég er hætt í bili. Að því sögðu þá tel ég fulla ástæðu til að vara ykkur við næstau færslu þar sem hún gæti innihaldið enn væmnari hluti….

Og fyrir þá áhugasömustu, er á snap : oddnysilja

 

Þangað til þá,

Oddný

2 comments

Reply

Fyndna frábæra þú <3

Reply

Æji þú 🙈❤️

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *