Er búin að vera að þróa þessa uppskrift seinustu tvo mánuðina.  Ég gerði Vegan Karmellubita fyrir nokkru síðan sem minntu mig svo mikið á Sörur að ég varð að reyna að gera uppskrift eins nálægt hefðbundnum Sörum og ég mögulega gæti fyrir jólin.

Ég er nokkuð ánægð með þessa uppskrift og bitarnir eru algjört lostæti. Þeir teljast ekki bara Vegan, heldur einnig hráfæði og er mjög auðvelt að hafa þá alveg sykurlausa. Þeir eru geymdir í frysti og ég mæli með að bera þá fram alveg frosna, þeir verða ekki eins góðir ef þeir bíða við stofuhita í meira en 10-15 mín – svo best er bara að næla sér í bita beint úr frystinum.

Börnin mín borða þá líka með bestu lyst og þeir klárast alltaf strax úr frystinum þegar þau vita af þeim….. Litlar hendur eru fljótar að næla sér í það sem er bragðgott á heimilinu. Ég þarf ekkert að vera með samviskubit yfir því þar sem þessir bitar eru bara hollir og góðir fyrir líkama og sál <3

Grunnur

1 bolli kasjúhnetur, heslihnetur eða möndlur

1 bolli möndlumjöl

1-2 msk hlynsíróp (eða agave/stevía ) – má sleppa

2 msk kókosolía

Blandið kasjúhnetum og möndlumjölinu í matvinnsluvél, með töfrasprota eða blandara og notið pulse stillingu í nokkrar sekúndur þar sem blandan er eins og gróft hveiti.

Bætið við kókosolíunni og sætunni (hlynsírópinu) og blandið vel og á blandan að vera nokkuð klístruð

Færið blönduna á bökunarpappír eða í bökunarform og þrýstið niður þar til komið er grunnlag sem er ca hálfur sentimeter á þykkt og nokkuð vel þéttað. Mér finnst best að leggja bökunarpappír ofan á kúluna og fletja þetta út með kökukefli, þannig næ ég laginu enn þynnra. Setjið svo í frystinn í ca 10-20 mínútúr á meðan þið blandið millilagið.

Millilag – Karmellan

3 dl klístraðar döðlur

1 dl hnetusmjör

3 msk kókosolía

smá vatn

smá salt

Haframjólk/Möndlumjólk (er að nota rétt rúmlega 1 dl en það fer bara alveg eftir hversu þykka þið viljið hafa karmelluna)

Setjið döðlurnar í matvinnusluvél með smá vatni og blandið vel. Bætið við hnetusmjörinu, kókosolíunni og smá salti og blandið vel. Hellið hægt við haframjólk eftir þörfum og blandið þar til þið eruð komin með karmellu sem er mjög mjúk og auðveld að vinna með.

Dreifið þessu jafnt yfir grunnlagið og setjið aftur inn í frysti.

Efsta lagið/súkkulaðilag

200 gr Dökkt, vegan (sykurlaust ef viljið) súkkulaði

1-2 tsk af kókosolíu

Á meðan grunnlögin tvö kælast í frysti, bræðið súkkulaðið og kókosolíuna yfir vatnsbaði.

Takið úr frysti og skerið í bita eða hellið súkkulaðinu jafnt yfir allt.

Ef þið skerið ekki í bita áður en þið setjið súkkulaðið á þá er best að hella súkkulaðinu jafnt yfir og setja svo aftur í frysti og leyfið að vera þar í ca 5 mín áður en skorið í bita, eða skera bara beint í bita áður en sett er í frystinn þar sem súkkulaðið á það til að harðna strax og því er dreift yfir karmelluna. Ef þið setjið í frysti áður en þið skerið er hætta á að súkkulaðið fari í brot og þá verða bitarnir ekki eins fallegir.

Ef þið skerið í bita áður en súkkulaðið er sett á, þá er bitunum dýft í súkkulaðið og toppurinn þakinn yfir karmellulagið (eða eftir smekk).

Leggið bitana (á hliðina án súkkulaðis) á bökunarpappír, disk eða fat og setjið aftur í frystinn í ca klukkutíma.

Setjið svo í lokuð ílát og berið fram frosið!

Munið að bera fram frosið!! Ekki geyma á borðinu <3

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *