Ert þú á þeim stað í dag að hafa sett þér markmið um áramótin og finnur að þú ert að missa dampinn?

Af hverju ætli það sé svona erfitt fyrir flest okkar að hægja á okkur, einfalda lífið og hugsa vel um okkur? Þrátt fyrir sterkan vilja, ákveðni og þekkingu virðumst við oft missa dampinn eftir ákveðinn tíma.

Kannski ætti spurningin að vera: Af hverju eigum við svona erfitt með að sleppa takinu af ákveðinni hegðun, hlutum og samskiptum? Við hvað erum við hrædd?

Því miður vill það oft vera þannig að metnaðurinn okkar til þess að ná árangri er skaðlegur sálinni. Flest erum við svelt af samkennd, sjálfs-samþykki, sjálfs-þekkingu, sjálfs-umhyggju og sjálfs-ást. Við þráum öll einfalt og þægilegt líf en einhverra hluta vegna er nánast ómögulegt að öðlast það. Við þráum jafnvægi en getum ekki haldið því.

Það er einfaldlega enginn tími til þess að halda öllum boltum á lofti og hvað þá tími til þess að hreinsa til hugsanir, hluti og hegðun sem ollu því til að byrja með hversu yfirþyrmandi lífið okkar virðist vera.

Flestar aðferðir sem notaðar eru til þess að ná árangri á ákveðnum sviðum í lífinu til hreinsunar, hvort sem er að hreinsa til í mataræði, hreyfingu, heima fyrir eða vinnunni gera ekki ráð fyrir öllum þeim tilfinningum sem koma upp þegar við vinnum í hreinsun.

Við gleymum að gera ráð fyrir því að það liggur einhver ástæða að baki hugsunar-og hegðunarmynstrinu sem við erum föst í. Þegar okkur mistekst að breyta og hreinsa til hafa þessar aðferðir oft þveröfug áhrif á okkur, í stað þess að við finnum fyrir sigurtilfinningu og vellíðan yfir að ná þeim árangri sem við þá náum, þá aukum við frekar á skömmina og vanlíðan yfir að hafa “mistekist”.  Af því þessar hefðbundnu aðferðir eru ekki að vinna í rót vandans heldur eru eins konar “quick fixes”. Þessi alltof algenga nálgun, svona línuleg hugsun um árangur, gerir ekki ráð fyrir mannlega þættinum, t.d að dags daglega erum við að glíma við alls konar ósjálfráð viðbrögð við áreiti, t.d. “fight-or-flight” viðbrögð, alls konar erfiðar hugsanir og tilfinningar sem hafa gríðarleg og ósjálfráð áhrif á lífið okkar og hegðun.

Fyrir 5 árum greindist ég með vefjagigt…..

og þremur árum síðar var ég orðin rúmliggjandi af sársauka, heilaþoku, sleni, þreytu og vanlíðan – hætt að geta sinnt vinnu og börnum.

Vefjagigt er talinn streitu og áfalla sjúkdómur og hef ég þá trú að með því að vinna í hegðunninni, mynstrinu og áföllunum sem voru undanfarinn að honum geti ég lágmarkað einkenni hans og jafnvel útrýmt honum.

Það er ótrúlegt hvað það hugarfar hefur kennt mér mikið og sýnt mér hvernig ég get raunverulega náð þeim árangri sem mig langar til og ég held þú getir það líka.

Ég tók mjög meðvitaða ákvörðun, þegar ég lá í rúminu og sá hvert stefndi, að ég myndi ná heilsunni minni til baka. Sama hvað það kostaði. Ef það væri eitthvað verðugt hlutverk í lífinu væri þetta.

Ég á vonandi eftir mörg ár í þessu lífi og mér finnst ég einfaldlega ekki hafa neinn annan kost í stöðunni en að bera ábyrgð á eigin líkama og heilsu. Fyrir börnin mín þrjú, fjölskylduna mína og ekki síst sjálfa mig.

Eina sem ég gat gert var að breyta algjörlega um lífsstíl og hugarfar. Breyta um mynstur og er ég á hverjum degi að breyta daglegu venjunum mínum enn meira. Þessi tvö ár hafa einkennst af miklum sveiflum og breytingum og verið ótrúlega lærdómsrík og erfið. Þau hafa jafnframt tekið mig á allt annan stað en ég hefði geta ímyndað mér, miklu betri stað og ég er mjög spennt fyrir þeim áskorunum og verkefnum sem eiga eftir að koma. Skrefin eru mörg en þegar ég einbeiti mér að einu þeirra í einu þá fer ég áfram.

Mig langar að deila með ykkur hvaða atriði það eru sem ég tel að standi upp úr og eru lykillinn minn að breyttu hugsunar-og hegðunarmynstri sem hafa haft langvarandi, djúpstæð og jákvæð áhrif á lífsgæðin mín til lengri tíma. Ég vona að þau geti jafnframt gefið þér innblástur fyrir þitt ferðalag.

 

1. Setja sjálfa/n sig í fyrsta sæti

Þessu langar mig sérstaklega að beina til kvenna (þótt menn séu engin undantekning) – en einhverra hluta vegna gleymum við margar hverja að hugsa fyrst og fremst um okkur sjálfar. Setja súrefnisgrímuna á okkur sjálfar áður en við setjum á restina.

Til þess að ná árangri og hreinsa raunverulega til þurfum við að setja okkur algjörlega í fyrsta sæti og ég meina Í FYRSTA SÆTI. Þú munt ekki ná að hafa jákvæð áhrif á lífið þitt, minnka streitu og líða betur nema þú takir utan um og horfist í augu við mynstrið sem er valdurinn að streitunni sem þú býrð við. Ef þú upplifir ekki öryggi í eigin skinni muntu ekki sleppa takinu af mynstrinu sem deyfir. Að hreinsa til í lífinu sínu er innri vinna sem byrjar og endar á sjálfinu þínu. Hversu mikið þú elskar þig, sýnir þér samkennd og samþykki er raunverulega grundvöllurinn að því að ná þeim árangri sem þú vilt.

Ég setti sjálfa mig í fyrsta sæti með því að leita til þeirra sérfræðinga sem ég þurfti á að halda, breyta um mataræði sama hvað það kostaði og sama hversu mikinn tíma það tók frá öðrum þáttum, stunda reglulega hreyfingu jafnvel þótt það myndi bitna að einhverju leyti á öðrum heimilismeðlimum og segja meira upphátt hvað ég vildi og vera ákveðin á mínar skoðanir, langanir og þarfir. Ég fór að setja mörk á aðra og sjálfa mig. Ég fór líka að hugsa betur um mig og lærði að elska sjálfa mig miklu meir en áður, með öllum þeim kostum og göllum sem ég hef að bera.

 

2. Breyta hugarfarinu: horfa á lífið sem ferðalag en ekki áfangastað með aðstoð núvitundar og hugleiðslu.

Til þess að árangur viðhaldist og verði mynstur þarf að breyta hugarfari. Það að hreinsa til er ekki eitthvað sem þú framkvæmir bara einu sinni (eða um hver áramót) og treður inn í líf þitt. Hreinsun er lífstíll – ferðalag – sem er ekki alltaf að ganga upp, skýrt eða í beinni línu. Hreinsun snýst heldur ekki um að “losna við”. Hreinsun snýst um að sleppa takinu af hugsunum og hlutum sem þjóna okkur ekki lengur, hugsanir og hegðun sem standa í veginum fyrir því að við áttum okkur á raunverulegu eðli okkar og hvernig hið fullkomna líf lítur út í okkar augum og fyrir okkar raunverulega sjálf.

Þegar ég lá í rúminu og velti fyrir mér hvað ég gæti mögulega gert til þess að koma í veg fyrir að ég þyrfti að hætta að vinna og komast úr þessari vanlíðan var ég ekki að hugsa um hvernig ég myndi líta út þegar árangrinum væri náð eða hversu mikla orku ég hefði þegar á áfangastaðinn væri komið.

Ég bara hugsaði ekkert um áfangastaðinn.

Eina sem ég hugsaði um var: “hvað get ég gert í dag til þess að mögulega líði mér betur á morgun og geti liðið vel til lengri tíma, sinnt skyldum mínum og börnum.”

Ég trúði einfaldlega að ef ég myndi hlusta á líkamann minn og innsæi færi ég réttu leiðina. Ég tók öllum ráðum sem ég gat fengið og tónuðu við “gut-feelingið” mitt og þeirri skynsemi og þekkingu sem ég hafði sankað að mér um sjálfa mig og líkama minn.  Ég reyndi að forðast það að nota lyf (og allt annað sem deyfir líkamann og hugann) því ég vissi að þá væri ég að deyfa líkamann og hann gæti ekki eins vel gefið mér boð um hvað væri í gangi.

Þetta snýst alltaf um ferðalagið, að vera í núinu og reyna að njóta þess sem hver dagur hefur upp á að bjóða. Það er í ferðalaginu sem sigurinn vinnst. Fyrstu mánuðina gat ég td ekki lyft lóðum, skokkað eða stundað aðra erfiða hreyfingu. Eina sem ég gat gert var að labba, gera magaæfingar og rólegt jóga. Þá gerði ég bara akkúrat það. Svo fann ég með tímanum að líkaminn fór að þola meira og ég hef stöðugt verið að auka á álagið á líkamann.

Mér hefur reynst best að ná þessu með því að lifa í meðvitund/núvitund og hjálpar hugleiðsla mér mikið að ná þeirri ró sem meðvitund krefst. Ég nota öppin Calm og Headspace, en líka alls konar hugleiðslur á youtube og svo hugleiða í kyrrð eða með möntrum.

 

3. Taka eftir daglegum venjum – með virkri hlustun og athygli

Fyrst og fremst eru það daglegar venjur sem eru lykillin að árangri – í sama hverju það er. Við getum með engu móti stjórnað veðrinu, heimsstjórnmálum eða öðrum utanaðliggjandi þáttum. En við getum haft stjórn á okkur sjálfum, venjum okkar, hugsunum, tilfinningum, viðbrögðum og rútínum.

Til þess að hreinsun sé varanlega þurfum við að hægja á okkur. Nei sko! Hlustaðu núna! ÞÚ ÞARFT AÐ HÆGJA VERULEGA Á ÞÉR.

Að hreinsa út gamla hegðun og venjur, sem í raun þýðir að standast hegðunarmynstur og flóttaleiðir sem eru margra ára gamalar krefst þess að við hægjum verulega á okkur, bæði dagskránna okkar og daglegt líf. Í samfélagsmynstrinu sem við búum í þar sem allt snýst um hraða og að “passa sig að missa ekki af” þarf rosalega mikið átak til þess að lifa í meðvitund og nútvitund – þ.e. vera alltaf vakandi fyrir því sem gengur á og hvernig við erum að bregðast við áreitinu í kringum okkur.

Dags daglega þurfum við að slaka á, meta og skoða hvað við erum að gera og af hverju við erum að gera það sem við gerum. Með því að vera stöðugt að skoða okkur svona, mynstrið, hegðun og hugsanir gerum við smávægilegar breytingar á hverjum degi sem eru raunverulegi lykillinn að varanlegum árangri til lengri tíma. Þannig breytum við dagsdaglegum venjum svo þær þjóni okkur til lengri tíma.

Ef þú skoðar daglegar venjur geturðu breytt einhverju litlu á hverjum degi sem myndi til lengri tíma hafa jákvæð áhrif á lífið þitt? Gætirðu staðið meira? Labbað meira? Borðað meira salat? Borðað í meðvitund? Sleppt því að kíkja á símann í hvert sinn sem gefst tóm stund? Knúsað meira? Elskað meira? Hugsað fallegri hugsanir til þín og annarra?

Það krefst mikils aga og vilja að breyta um venjur og sérstaklega venjur sem eiga rætur sínar að rekja í gamalt hegðunar-og hugsunarmynstur, eitthvað sem mætti kannski kalla fíknarhegðun eða flóttaleiðir. Við eigum öll okkar flóttaleiðir til þess að forðast að takast á við erfið eða leiðinleg verkefni, það er bara mjög misjafnt að hverju þetta mynstur beinist og hvort þessi hegðun valdi öðrum og/eða okkur sjálfum skaða til lengri eða skemmri tíma.

Þessa ómeðvituðu, og oft óæskilegu hegðun, má stundum rekja til þess að við setjum virði okkar í einhverja utanaðliggjandi þætti, eitthvað annað en það að vera bara nóg – með öllum okkar kostum og göllum.

Með því að breyta um venjur erum við í raun að breyta ómeðvituðu hegðuninni okkar. Við erum að tengja virði okkar við eitthvað annað en það sem olli okkur skaða. Það sem við þurfum alltaf að hafa í huga er að nýja hegðunin, mynstrið eða venjurnar séu okkur góðar í dag og til lengri tíma, séu í hófi og nýtist þeim markmiðum og þeirri sýn sem við höfum til lífsins. Það vill nefnilega oft verða að við skiptum bara út einni ýktri hegðun fyrir aðra og dettum þá í sama farið að lokum, þ.e. að hegðunin fer að valda okkur meiri óþægindum en vellíðan þar sem við breyttum ekki hugarfarinu samhliða.

 

Að lokum þá langar mig að nefna þann þátt sem ég tel mikilvægastan af öllum í því að ná að breyta hegðun og venjum til þess að færast nær því lífi sem við viljum lifa. Sá þáttur hafði að minnsta kosti mest áhrif á mig og gerir það að verkum að á hverjum degi langar mig að hugsa vel um mig með því að borða holt og hreyfa mig, en það er að stunda stöðuga sjálfsást. Sem þýðir að við elskum okkur skilyrðislaust akkúrat eins og við erum, akkúrat núna. Jafnframt að við elskum okkur það mikið að það sem við gerum í dag, borðum, gerum og segjum er gert af kærleika til okkar sjálfra, en ekki til að forðast aðstæður, líðan eða ástand.

Þú verður að sætta þig við staðinn sem þú ert á hverju sinni og reyna að njóta hvers augnabliks – það er eina leiðin til þess að raunverulega geta breytt einhverju í þínu fari. Horfa á allt út frá kærleika til okkar sjálfra og annarra. Takast á við verkefnin út frá kærleiksgleraugum og muna að taka utan um okkur sjálf, elska okkur, samþykkja okkur og leyfa okkur að vera við sjálf, alla daga – alltaf.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *