“Ég kemst ekki, æji þú veist hvernig þetta er það er alltaf svo mikið að gera hjá mér…”

Já ég veit svo sannarlega hvernig þetta er… Þetta er eins og þjóðarmeinið sjálft “mikið er veðrið búið að vera ömurlegt undanfarna daga”.

Hvað hef ég oft sagt þetta upphátt? Eða heyrt þetta frá öðrum?

Jú jú við erum öll svo upptekin og frábær og flott að við höfum minni tíma en forseti Bandaríkjanna!

Staðreyndin er sú að okkur er öllum (öllum!) úthlutaður takmarkaður tími, bæði dagsdaglega og á jörðinni (ekki panikka og hætta að lesa, ég skal ekki fara alveg þangað, ekki í svo dramatísku stuði í dag). Við höfum öll svipuðum hnöppum að hneppa, við eigum börn, vini, foreldra og fleira fólk í lífi okkar, vinnu til að sinna, heimalærdóm, áhugamál og svo margt fleira sem við viljum sinna.

Tíminn er af skornum skammti og hvað gerum við? Við forgangsröðum, helling, á hverjum degi.

Og nú kemur bomban, B O B A (n).

Við erum að forgangsraða vitlaust alltof alltof oft. Ekki bara þið sem eruð að lesa heldur ég. Nú nálgast jólin (og ég í prófum þannig eðlilega fóru þessar pælingar á flug í stað þess að einbeita mér að bókunum!) og ég fyllist þessari kröftugu þörf til að umkringja mig fjölskyldunni minni og vinum mínum, gera eitthvað notalegt saman og spila saman (svindla, ekki spyrja þetta er ættarsjúkdómur), borða góðan mat, setja tærnar í loftið inn á milli og njóta. Jólin minna mig á það hvað ég er heppin, ég er svo heppin að ég á fjölskyldu út um allar trissur og svo marga góða vini að ég næ ekki að sinna þeim öllum eins og ég helst vildi. Ekki allir svona heppnir. Góð áminning.

 

Forgangsröðunin mín þessa dagana hefur verið á þessa leið :

  1. Áhyggjur af prófunum
  2. Áhyggjur af því hvar við verðum á aðfangadag (Geggjuð áhyggja, ein áhyggja?)
  3. Áhyggjur af því hvar þeir verða sem við elskum á aðfangadag
  4. Áhyggjur af því hvaða jólaboðum við náum og hvernig á að skipuleggja það
  5. Áhyggjur af því að eiga eftir að kaupa jólagjafir
  6. Áhyggjur af því að kaupa jólagjafir yfir höfuð, við erum námsmenn…
  7. Lesa fyrir prófin
  8. Áhyggjur af því að hafa gleymt aðventukransinum, bakað lítið og ekki skreytt (þið munið ég er svo upptekin og frábær ég hef engan tíma í það)
  9. Áhyggjur
  10. Spenna yfir jólnum og eyða tíma með strákunum mínum

Góð forgangsröðun? Ekki svo. Ég horfði á story hjá Camillu Rut í dag og það opnaði fyrir þessa flóðgátt í puttaræpunni minni (munnræpa á tölvu, gerist oft hjá mér). Hún talaði um það hvernig hennar fjölskylda og hún hefði lagt jólastress á hilluna, skellt sér í náttföt og spilað fram eftir öllu, ég sé þessa fjölskyldustund í hyllingum. Svo ég eigi nú í hættu á að verða smá væmin þá verð ég bara að segja, þvílík dásemd!

 

15416098_10154015513610796_1462808468_nSíðustu jólum eyddum við í Oman hjá systur minni, þvílíkur lúxus. Bæði sólarlega og áhyggjuleysislega séð.

 

 

 

 

 

 

En ég er eins og ég er, mannleg, ófullkomin og alltaf að læra. Þessi ágæta áminning fékk mig til að grípa þetta í víðara samhengi, jólin eru nefnilega stutt. Og ég er ekkert svona merkileg og mikilvæg eins og ég hljóma stundum “ æji ég er bara upptekin sorry, alltaf svo bissý þú þekkir mig hehe, he…” Hvað með alla hina daga ársins?

Ég ræddi svipaða hluti við vinkonu mína um daginn og við töluðum aðeins um það hvernig við mannskepnan högum okkur. Vinnum eins og hestar til að hafa efni á því að senda börnin á leikskóla, bara til þess að komast sjálf í vinnuna og svo heldur þessi rútína áfram. Allir dauðþreyttir en nokkrar aukakrónur á bankareikningnum til að kaupa okkur allt þetta drasl sem við kaupum (æji þið munið að ég er svo sek, elska alla þessa fallegu hluti og vil eignast þá alla! Á sama tíma og mér hugnast alls ekki þessi brjálæðislega neysluhyggja. Jæja fröken orðræpa, þú ert búin að blogga um það! GET TO THE POINT).

Hvað er ég þá að röfla?

FÓLKIÐ okkar manneskja, hvað heldurðu?! Hver eru raunverulega verðmætin? Það eru allar mannverurnar sem við höfum umkringt okkur af.

Nú eruð þið að hugsa : “ Já en Oddný kommon maður, time is monní, TIME IS MONNÍ!”

Já það er alveg rétt, með pening geturðu keypt þér tíma en  líka með sparnaði. Hvernig væri að taka tveimur færri aukavöktum og eyða meiri tíma með fólkinu þínu? Þú gætir keypt 1000 kr ódýrari jólagjafir á línuna og sleppt einni KFC ferð en það verður þess virði.

Ég var að ákveða að ég ætla að fresta einum áfanga í skólanum sem gæti gert mig óða því ég er orðin VEL tilbúin að útskrifast úr þessu blessaða námi… EN það sem ég fæ í staðinn er tími með mönnunum mínum um jólin sem ég hefði annars ekki fengið. Því verður einfaldlega ekki líkt við það að vilja útskrifast, hverjum er ekki sama hvort ég útskrifist 2017 eða 2018? Öllum, það er öllum sama.

Svo er það þannig að ég hef fengið vegna vinnunnar minnar að vera viðstödd við andlát nokkra einstaklinga, fylgst með þeim kveðja þennan heim og verið til staðar fyrir þá sem hann skildi eftir. Á svoleiðis stundum verður þetta allt ljóst (ég veit ég veit ég sagðist ekki ætla þangað, æji kommon það eru að koma jól, má maður stundum vera smá væminn?). Það er öllum sama um aukakrónurnar sem urðu til á bankareikning fyrir aukvakt sem einhver tók. Það er öllum alveg sama um einhverjar jólagjafir. Það eina sem skiptir máli er samveran, það er þannig með okkur mannskepnuna að við erum soddan félagsverur, elskum bara að vera saman. Það getur verið fallegt að horfa á einstakling sleppa takinu af þjáningu sem heltók líkama hans í andlegri ró því hann er umkringdur þeim sem hann elskar. Jafn átakanlegt að fylgjast með þeim sem ekki eiga jafn auðvelt með sama, ef til vill einir á lokastund.

Æji þetta er bara eitthvað til að hugsa um. Farið samt ekki að grenja, eruð þið nokkuð að grenja? Ég er allavega ekki að því…

Stundum er ég auðvitað upptekin og kemst ekki en ég mætti oftar taka þennan gæja á þetta : “Heyrðu jú ég ætla að koma, ég skipulegg lærdóm/vinnu/áhugamál/sparnað útfrá fólkinu mínu”.

Batnandi mönnum er nefnilega svo innilega best að lifa

Segjum þetta lokaorðin í kvöld í þessari stuttu, léttu og laggóðu bloggfærslu.

 

See you on the other side vinir mínir og dyggu lesendur

(snapchat sko, þið munið hvernig ég hef þetta – oddnysilja)

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *